Birgitta Jónsdóttir segist vera til í að leggja fram vantraust á nýja ríkisstjórn um leið og þingið kemur saman á ný. Þingflokkur Pírata mun funda um málið í dag, segir hún á Facebook-síðu sinni. Hún hvetur einnig til þess að Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, krefjist nýrra kosninga og lýsi fyrirfram yfir vantrausti á væntanlega ríkisstjórn, sem hann er á lokametrunum að mynda með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn.
Tilefnið er skýrsla um aflandseignir Íslendinga, sem fjármálaráðuneytið birti á föstudag. Eins og Kjarninn hefur greint frá var skýrslunni skilað til ráðuneytisins í september og Bjarni og aðrir fengu kynningu á henni í byrjun október. Engu að síður kom hún ekki fyrir sjónir almennings fyrr en fyrir helgi, en Kjarninn hafði margsinnis spurst fyrir um afdrif skýrslunnar.
Bjarni baðst afsökunar á því í gær að hafa sagt ranglega frá tímalínu atburða í tengslum við birtinguna. Á laugardag hafði hann haldið því fram að skýrslan hafi ekki borist honum og ráðuneytinu fyrr en eftir að þing hafði lokið störfum, en það var 13. október síðastliðinn. Því leið mánuður frá því að skýrslan barst ráðuneytinu og þar til þingið hætti störfum.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði við RÚV í morgun að skýrslan og öll umræðan í kringum hana hafi vakið upp spurningar innan þingflokksins og að þau ætli að kynna sér málið frekar.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir á Facebook-síðu sinni að hún fái ekki betur séð en að Bjarni hafi brotið gegn siðareglum ráðherra með því að „halda henni leyndri fyrir almenningi mánuðum saman.“ Hún á þá við grein í siðareglunum þar sem segir: „Ráðherra leynir ekki upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess að öðru leyti. Ráðherra ber að hafa frumkvæði að birtingu slíkra upplýsinga sé hún í almannaþágu.“