Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, hefir óskað eftir því skriflega að umboðsmaður Alþingis fjalli um hvort Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og verðandi forsætisráðherra, hafi brotið gegn 6. grein c siðareglna ráðherra með því að birta ekki skýrslu um aflandsfélög fyrr en nokkrum vikum eftir að hún lá fyrir.
Í bréfi Svandísar segir að í inngangi að gildandi siðareglum ráðherra komi fram að ábendingum megi koma á framfæri við umboðsmann Alþingis kunni að vakna spurningar um hvort um brot á siðareglum hafi verið að ræða. „Með erindi þessu er þess óskað að umboðsmaður Alþingis fjalli um hvort svo kunni að vera í því tilviki að fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson ákveður að birta ekki skýrslu um aflandsfélög fyrr enn allnokkrum vikum eftir að hún lá fyrir. Þar með var skýrslunni haldið frá almenningssjónum í aðdraganda kosninga sem eins og kunnugt er snerust að verulegu leyti um skattamál og skattaundanskot. Spurningar hafa vaknað um að sú ákvörðun ráðherrans kunni að varða 6. grein c. umræddra siðareglna en þar segir: „Ráðherra leynir ekki upplýsingum sem varða almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess að öðru leyti. Ráðherra ber að hafa frumkvæði að birtingu slíkra upplýsinga sé hún í almannaþágu.““
Tilefnið er skýrsla um aflandseignir Íslendinga, sem fjármálaráðuneytið birti á föstudag. Eins og Kjarninn hefur greint frá var skýrslunni skilað til ráðuneytisins í september og Bjarni og aðrir fengu kynningu á henni í byrjun október. Engu að síður kom hún ekki fyrir sjónir almennings fyrr en fyrir helgi, en Kjarninn hafði margsinnis spurst fyrir um afdrif skýrslunnar.
Bjarni baðst afsökunar á því í gær að hafa sagt ranglega frá tímalínu atburða í tengslum við birtinguna. Á laugardag hafði hann haldið því fram að skýrslan hafi ekki borist honum og ráðuneytinu fyrr en eftir að þing hafði lokið störfum, en það var 13. október síðastliðinn. Því leið mánuður frá því að skýrslan barst ráðuneytinu og þar til þingið hætti störfum.