Rúmur fjórðungur stjórnarmanna í Bjartri framtíð greiddi atkvæði gegn samþykkt stjórnarsáttmála verðandi ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar, sem Björt framtíð á aðild að ásamt Sjálfstæðisflokki og Viðreisn. Stjórnarsáttmálinn var samþykktur í flokksráði Sjálfstæðisflokks án nánast nokkurra mótmæla og hlaut dynjandi lófaklapp að því loknu. Hann var einnig samþykktur án athugasemda í ráðgjafaráði Viðreisnar. Fundi stjórnar Bjartrar framtíðar lauk síðar en fundi hinna tveggja flokkanna og lauk ekki fyrr en seint á ellefta tímanum í gær. Í Morgunblaðinu segir að að loknum umræðum hafi hann verið samþykktur í rafrænni atkvæðagreiðslu með 51 atkvæði en 18 voru á móti. Það þýðir því að tæplega 73 prósent þeirra stjórnarmanna sem greiddu atkvæði samþykktu sáttmálann en rúmlega 27 prósent voru á móti.
Nýr stjórnarsáttmáli verður undirritaður eftir hádegi í dag. Það mun þó ekki skýrast fyrr en í kvöld hverjir verða ráðherrar í nýrri ríkisstjórn þegar þingflokkar stjórnarflokkanna funda. Fyrir liggur að Óttarr Proppé verður heilbrigðisráðherra og Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra. Þá mun Benedikt Jóhannesson verða fjármála- og efnahagsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður félags- og húsnæðismálaráðherra og Þorsteinn Víglundsson verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. En hefur ekki fengist staðfest hverjir muni setjast í ráðherrastóla fyrir Sjálfstæðisflokkinn en Bjarni sagði í fréttum RÚV í gær að hann myndi ekki leita út fyrir þingflokkinn eftir ráðherraefni.