Ungliðahreyfing Viðreisnar segir að þau misvísandi skilaboð sem Bjarni Benediktsson, verðandi forsætisráðherra, hafi gefið varðandi birtingu skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum séu ólíðandi og gangi þvert gegn þeim starfsháttum sem Ungliðahreyfing Viðreisnar vill sjá á þingi. Hún vill að Alþingi leiti skýringa á starfsháttum Bjarna. Málefnasamningur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sé samþykktur í skugga þeirrar ákvörðunar Bjarna að fresta birtingu skýrslunnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem ungliðarnir birtu í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
Þar segir að í málefnasamningnum sé frjálslyndi, velferð og umbætur hafðar að leiðarljósi, þótt Ungliðahreyfing Viðreisnar hafi viljað ganga lengra til að ná þeim markmiðum. Flokkarnir virðist hafa tekið tillit til stefnumála hvers annars og gert með sér samkomulag sem samstaða getur skapast um, bæði innan þings og meðal þjóðarinnar. „Málefnasamningur flokkanna var þó samþykktur í skugga ákvörðunar fráfarandi fjármálaráðherra um að fresta birtingu skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Ómögulegt er að meta núna hver áhrif birtingar skýrslunnar fyrir kosningar hefðu verið, en ljóst er að efni hennar átti fullt erindi við kjósendur. Eins er ótímabært að spá fyrir um hvaða pólitísku áhrif efni skýrslunnar muni hafa á fráfarandi fjármálaráðherra eða flokk hans. Eftir stendur þó að frestun birtingarinnar og þau misvísandi skilaboð sem ráðherrann gaf varðandi birtinguna eru ólíðandi og ganga þvert gegn þeim starfsháttum sem Ungliðahreyfing Viðreisnar vill sjá á þingi.
Ungliðahreyfing Viðreisnar vill að ráðherrar og þingmenn axli ábyrgð á gjörðum sínum í starfi. Ungliðahreyfingin hvetur Alþingi til að leita skýringa á umræddum starfsháttum fráfarandi fjármálaráðherra, meta áhrif þeirra og tryggja að slíkir starfshættir fái ekki að líðast í hinni nýju ríkisstjórn.“