Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, studdi ekki þá ráðherraskipan sem Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, lagði til og var samþykkt af þingflokki Sjálfstæðisflokks í gærkvöldi. Páll greinir frá þessu í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni. Þar segist hann ekki hafa getað stutt ráðherraskipanina af tveimur ástæðum. Önnur væri sú að skipanin gangi í veigamiklum atriðum gegn því lýðræðislega umboði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áunnið sér í prófkjörum og síðan í kosningunum í haust. Í öðru lagi fæli hún í sér „lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann sinn stærsta sigur í kosningunum.“
Tilkynnt var um ráðherraskipan nýrrar ríkisstjórnar í gærkvöldi. Í henni munu sitja ellefu ráðherrar. Bjarni Benediktsson verður forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Guðlaugur Þór Þórðarson verður utanríksiráðherra, Sigríður Andersen verður dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson verður ráðherra samgöngumála, byggðamála, sveitastjórnarmála og Kristján Þór Júlíusson verður menntamálaráðherra. Þá verður Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis. Því verða ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sex talsins en hinir tveir flokkarnir í ríkisstjórninni, Viðreisn og Björt framtíð, fá saman fimm ráðherra.
Benedikt Jóhannesson verður fjármálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Óttarr Proppé heibrigðisráðherra og Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra.