Karl Pétur Jónsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir hafa verið ráðin sem aðstoðarmenn Þorsteins Víglundssonar, nýs félags- og jafnréttismálaráðherra.
Karl Pétur er með BA próf í stjórnmálafræði og MBA gráðu. Hann hefur starfað sem ráðgjafi í almannatengslum frá árinu 2009 og verið kvikmyndaframleiðandi, en starfaði hjá fjárfestingabankanum Askar Capital frá 2007 til 2009. Þar á undan var hann stofnandi og ráðgjafi hjá almannatengslafyrirtækinu Inntaki. Hann er varabæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og situr þar í skólanefnd og jafnréttisnefnd bæjarins.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir er lögfræðingur að mennt, er með LL.M. gráðu og diplómagráðu í afbrotafræði. Hún hefur verið deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst frá árinu 2015 og starfaði fyrir það sem aðstoðarsaksóknari og deildarstjóri ofbeldisbrotadeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefur einnig verið aðstoðarmaður dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur og unnið við rannsóknarstörf hjá EDDU – Öndvegissetri við HÍ við rannsókn á einkennum naugðunarmála og málsmeðferð þeirra.
Þorbjörg Sigríður var í öðru sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í kosningunum í haust, og er því varaþingmaður fyrir ráðherrann sem hún hefur nú ráðið sig sem aðstoðarmaður hjá.