Fjármála- og efnahagsráðuneytið hafnar því að dagsetning á forsíðu skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum hafi verið „hvíttuð“ og segir að engar efnislegar breytingar hafi verið gerðar á skýrslunni eftir að henni var skilað til ráðuneytisins um miðjan september. Hins vegar hafi verið gerðar smávægilegar lagfæringar af eða í samráði við formann starfshópsins, meðal annars á titli hennar. „Titillinn var skrifaður í textabox sem er af ákveðinni stærð. Þar sem lagfærður titill var lengri en upphaflegur titill færðist textinn niður og varð lengri en stærð textaboxins leyfði. Því færðist hluti undirfyrirsagnarinnar og annar texti niður og af þeim sökum féll dagsetning af forsíðunni.
Ráðuneytið áréttar að aldrei voru áhöld um hvenær vinnslu skýrslunnar lauk. Skýrt er tekið fram í skýrslunni að henni hafi verið skilað er liðið var á september. Loks vísar ráðuneytið til þess að vanalegt að setja dagsetningu þess dags eða mánuðar þar sem viðkomandi rit eru birt, og því hefði verið réttast að á forsíðu hennar stæði janúar 2017.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Kynnt í byrjun október en birt í janúar
Skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum var tilbúin um miðjan september, og henni skilað til ráðuneytisins þá. Samkvæmt svörum sem Kjarninn fékk við upphaflegri fyrirspurn sinni um málið, í byrjun nóvember, var skýrslan kynnt í ráðuneytinu í byrjun október. Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, fékk kynningu á henni 5. október. Skýrslan var fyrst gerð opinber fyrir viku síðan, föstudaginn 6. janúar. Þá voru tæpir fjórir mánuðir liðnir frá því að henni var skilað og þrír mánuðir frá því að hún var kynnt fyrir ráðherra.
Kjarninn greindi frá því fyrir viku síðan að fram kemur í skýrslunni að henni hafi verið skilað þegar „nokkuð var liðið á september.“ Á forsíðu skýrslunnar kemur einnig fram tímasetningin september 2016, en það er með hvítu letri svo tímasetningin er ógreinileg nema tekið sé utan um textann.