Biðlaun ellefu aðstoðarmanna ráðherra, sem hættu störfum 11. janúar í kjölfar þess að ný ríkisstjórn tók við völdum, gætu numið allt að 38,5 milljónum króna. Einn aðstoðarmaður ráðherra í síðustu ríkisstjórn hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort hún fylgi honum til nýrra ráðherra starfa. Hætti hún getur biðlaunakostnaðurinn farið upp í um 42 milljónir króna. Þetta kemur fram í DV í dag.
Einungis tveir ráðherrar sem sátu í síðustu ríkisstjórn sitja við ríkisstjórnarborðið í stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Það eru Bjarni Benediktsson, nú forsætisráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, nú mennta- og menningarmálaráðherra. Svanhildur Hólm Valsdóttir, sem hefur verið aðstoðarmaður Bjarna um árabil, fylgir honum í nýtt ráðuneyti en Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir, sem aðstoðaði Kristján Þór á síðasta kjörtímabili, hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hún geri slíkt hið sama.
Aðrir aðstoðarmenn ráðherra í ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, alls ellefu talsins, hafa lokið störfum. Samkvæmt úrskurði kjararáðs frá því á miðju síðasta ári hafa aðstoðarmenn um 1.167.880 krónur í laun á mánuði. Þegar þeir láta af starfi eiga þeir rétt á þriggja mánaða biðlaunum. Því gætu greiðslur til aðstoðarmannanna ellefu orðið 38,5 milljónir króna nýti þeir allir fullan biðlaunarétt. Ef Inga Hrefna hættir líka fer sú tala upp í um 42 milljónir króna.