Magnús Sigurbjörnsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2013, hefur sagt upp störfum hjá flokknum. Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar segist hann telja að Sjálfstæðisflokkurinn eigi mörg tækifæri í Reykjarvíkurborg, en að hann sakni „þeirra frjálslyndu gilda sem að flokkurinn ætti að standa fyrir.“ Magnús er bróðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins, sem kosin var á þing í október.
Færsla Magnúsar í heild sinni:
„Á meðan ég fagna nýju ríkisstjórnarsamstarfi undir forystu Sjálfstæðisflokksins þá hef ég sagt upp störfum hjá bæði Sjálfstæðisflokknum og Perform Group (áður RunningBall).
Á fjórum árum hef ég farið með flokknum í gegnum þrjár kosningabaráttur, tvo landsfundi, talsvert af borgarstjónarfundum og fullt af öðrum fjölbreyttum verkefnum. Það hefur verið gaman að vera þátttakandi í því að gera Sjálfstæðisflokkinn að stærsta flokki landsins að nýju og koma þeim í ríkisstjórn tvisvar sinnum í röð. Einstaklega gaman var að fylgjast með Áslaugu standa sig vel í prófkjörinu í haust og komast svo á þing í október.
Borgarmálin hafa verið mér kær alveg frá því ég skráði mig í flokkinn. Ég hef unnið með borgarfulltrúum flokksins frá því eftir þingkosningar 2013. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn eigi mörg tækifæri í borginni, en ég sakna þeirra frjálslyndu gilda sem að flokkurinn ætti að standa fyrir. Ég hef átt mjög ánægjulegt samstarf við borgarfulltrúa flokksins og kveð þau með söknuði.
Ég vil annars nota tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sem ég hef starfað með á síðustu árum fyrir samstarfið. Að starfa í pólitík myndi ég hvorki kalla eðlilegt né venjulegt starf, en það var bæði mjög lærdómsríkt og skemmtilegt. Á móti er ég hvorki þræleðlilegur né venjulegur svo það hefur hentað manni mjög vel.
Fyrir jól sagði ég einnig upp störfum hjá Perform Group (áður RunningBall) sem hefur verið litla barnið mitt síðustu níu ár. Árið 2007 gróf ég upp starf hjá fyrirtækinu sem fól í sér að mæta á fótboltaleiki hérna heima og safna tölfræði í rauntíma af fótboltaleikjum í efstu deild karla. Upplýsingarnar selur fyrirtækið mestmegnis til veðmálafyrirtækja svo að hægt sé að veðja á slíka leiki á meðan þeir eru í gangi. Stuttu síðar var ég ráðinn til þess að sjá um starfsemi fyrirtækisins hér á Íslandi ásamt því að ég sá um Noreg og Færeyjar um tíma. Ísland stækkaði hratt og varð mjög stór bóla í þessum heimi og er enn. Ekki leið á löngu þangað til við vorum byrjaðir að safna upplýsingum af öllum fótboltaleikjum hér á landi – náðum mest hátt í 1500 leiki á ári.
Nú tekur við næsti kafli. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvernig hann verður en það kemur í ljós fljótlega. Lífið er jú núna.“