Formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa rætt um að breyta reglum um innköllun varamanna á þingi þannig að heimilt verði að kalla inn varamann í einn eða tvo daga. Sem stendur er reglan þannig að varamaður þarf að sitja í fimm daga hið minnsta þegar hann er kallaður inn, nema í aðdraganda þingloka. Þá má kalla varamann inn í einn eða tvo daga. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þar er rætt við Birgi Ármannsson, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, sem staðfestir að málið hafi verið rætt en að það sé ekki í neinum formlegum farvegi. „Auðvitað má segja að í naumum meirihluta, eins og nú er, geti reynt meira á þetta. Venjulega hafa mál verið leyst með þeim hætti að þingmenn hafa parað sig út hver á móti öðrum, stjórnarandstæðingur á móti stjórnarliða, og yfirleitt hefur slíkt heiðursmannasamkomulag haldið, þótt dæmi séu um annað, bæði frá síðustu árum og fyrri tíð.“