Sameiginlegt fylgi Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar mælist 39,3 prósent í nýrri könnun MMR sem sýnir fylgi flokkanna eins og það mældist 10. janúar síðastliðinn, sama dag og ný ríkisstjórn flokkanna þriggja var kynnt. Niðurstöður hennar hafa hins vegar verið birtar inni á heimasíðu fyrirtækisins.
Samkvæmt könnuninni mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 26,1 prósent, Viðreisnar 6,9 prósent og Bjartrar framtíðar 6,1 prósent. Samtals fengu flokkarnir þrír 46,7 prósent fylgi í kosningunum 29. október í fyrra. Þeir tapa allir fylgi frá kosningunum samkvæmt könnuninni. Sjálsfstæðisflokkur 2,9 prósentum og Viðreisn 3,6 prósentum en Björt framtíð 0,9 prósentum.
Vinstri græn mælast nú með 24,3 prósent fylgi eða 8,4 prósentum meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Píratar eru nánast með sama fylgi og þeir fengu í kosningunum í lok október (14,6 prósent), Samfylking bætir örlitlu við sig (úr 5,7 í 6,4 prósent) en Framsóknarflokkurinn, sem fékk síðan verstu útreið í 100 ára sögu sinni í kosningunum þegar hann fékk 11,5 prósent atkvæða, mælist nú með 10,9 prósent fylgi.