Ársreikningar, hluthafaskrár og fyrirtækjaskrár ættu að vera öllum opnar. Þetta kom fram í máli Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í sérstakri umræðu um skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.
Það var Smári McCarthy, þingmaður Pírata, sem vakti máls á þessu í umræðunni og spurði fjármálaráðherra hvort honum þætti rétt að opna fyrirtækjaskrá, ársreikningaskrár og hluthafaskrár upp á gátt. Þetta hafi meðal annars verið gert í Bretlandi nýlega. Með svona aðgerðum væri hægt að vinna beint gegn skattaundanskotum.
„Ég tel að allar þessar skrár eigi að vera að vera opnar og vil bæta því við að ég tel að það eigi að vera gagnsætt eignarhald, þannig að það sé ekki bara sagt að það séu einhver félög sem eigi önnur félög. Það á að koma fram hver hinn endanlegi eigandi er,“ sagði Benedikt.
Það var Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sem var málshefjandi í umræðunni í dag. Hún spurði Benedikt um það til hvaða aðgerða hann hygðist grípa vegna aflandsvæðingar og skattaundanskota. Hvort hann hygðist láta skoða málin betur, láta safna frekari gögnum og gera málið að því forgangsmáli sem það eigi að vera í stjórnsýslunni.
Benedikt sagði málið vera í forgangi og að hann myndi grípa til víðtækra ráðstafana. Hann sagðist meðal annars hafa farið í heimsóknir til ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra á sínum fyrstu dögum í ráðuneytinu. Hann vilji fá tillögur frá þessum stofnunum inn í aðgerðir stjórnvalda gegn skattaskjólum. Einnig sagði hann að tillögur samráðsvettvangs um aukna hagsæld, um einföldun skattkerfisins, vera í virkri skoðun í ráðuneytinu.
Katrín og fleiri stjórnarandstöðuþingmenn minntust á að svör ráðherra væru ekki nægilega skýr um málið. Það væri ekki nóg að fara í heimsóknir til undirstofnana og biðja þær um tillögur. „Ég get alveg tekið undir það hjá mörgum háttvirtum þingmönnum að auðvitað voru mín svör tiltölulega þunn. Ég er bara ekki kominn lengra í þessu máli og ég þekki málaflokkinn ekki nægilega vel og þess vegna leita ég til sérfræðinga og undirstofnana til þess að kynna mér málið betur, en málið mun verða sett í forgang,“ sagði Benedikt í seinni ræðu sinni.