Stjórnendur Kaupþings gera ráð fyrir því að almennt hlutafjárútboð Arion banka, þar sem félagið mun bjóða íslenskum og erlendum fjárfestum að kaupa eignarhlut þess í bankanum, fari fram öðrum hvorum megin við páskahelgina um miðjan apríl næstkomandi.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Kaupþing á 87 prósent alls hlutafjár í bankanum og ríkið 13 prósent. Miðað við bókfært eigið fé Arion banka er hlutur Kaupþings metinn á um 180 milljarða króna.
Það mun skýrast hvernig útboðið mun ganga og ræðst það af áhuga og eftirspurn fjárfesta. Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að nokkrir alþjóðlegir fjárfestingarsjóðir hafi nýlega átt fundi hér á landi með yfirstjórnendum Fjármálaeftirlitsins (FME) í tengslum við möguleg kaup á hlut í bankanum.
Þannig áttu fulltrúar bandarísks sjóðs, sem er jafnframt í hópi stærstu kröfuhafa Kaupþings, slíkan fund með FME fimmtudaginn 12. janúar síðastliðinn, að því er fram kemur í Fréttablaðinu.