Ásta Guðrún Helgadóttir er nýr þingflokksformaður Pírata og tekur við starfinu af Birgittu Jónsdóttur. Einar Brynjólfsson er nýr varaþingflokksformaður og Björn Leví Gunnarsson er ritari þingflokks. Þetta var ákveðið á þingflokksfundi Pírata í gær.
Píratar fengu 14,5 prósent atkvæða í Alþingiskosningunum í október 2016 og alls tíu þingmenn kjörna. Það var 9,4 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í kosningunum 2013. Píratar eru nú þriðji stærsti flokkurinn á Alþingi. Einungis Sjálfstæðisflokkurinn, með 21 þingmenn og 29 prósent atkvæða, og Vinstri græn, með tíu þingmenn og 15,9 prósent atkvæða, eru stærri.
Nú hafa allir stjórnmálaflokkar ákveðið hverjir verða þingflokksformenn þeirra. Hjá Sjálfstæðisflokki er það Birgir Ármannsson, hjá Viðreisn Hanna Katrín Friðriksson, hjá Samfylkingu Oddný Harðardóttir, hjá Vinstri grænum Svandís Svavarsdóttir, hjá Framsóknarflokki Þórunn Egilsdóttir og hjá Bjartri framtíð Theodóra S. Þorsteinsdóttir. Sex af sjö þingflokksformönnum eru því konur.