Erlendir ferðamenn eyddu 263 milljörðum króna á Íslandi á árinu 2015. Það er 66 milljörðum krónum meira en þeir eyddu alls hérlendis árið 2014, þegar heildarútgjöld þeirra námu 197 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands um ferðaþjónustureikninga vegna áranna 2014 og 2015 sem birtar voru í dag.
Þar segir einnig að hlutdeild farþegaflutninga í heildarútgjöldum hafi dregist saman á undanförnum árum. 2015 var hlutdeildin 21,9 prósent en var 28,9 prósent árið 2009. Hlutdeild gistiþjónustu hefur hins vegar aukist úr 18,8 prósentum í 21,3 prósent á sama tímabili.
Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mikið á Íslandi á undanförnum árum. Á árinu 2015 einu saman fjölgaði þeim um 27 prósent og var heildarfjöldi þeirra 1.587.071. Í fyrra fjölgaði þeim enn og er áætlað að fjöldinn hafi verið um tvær milljónir alls. Það þýðir að vöxturinn á árinu 2016 hefur verið svipaður og árið áður. Skili það sömu aukningu í tekjum má áætla að heildarútgjöld ferðamanna hérlendis í fyrra hafi verið um 350 milljarða króna. Ýmsir aðrir þættir en fjöldi ferðamanna getur þó haft áhrif á þá niðurstöðu, t.d. styrking krónunnar, sem var mikil á árinu 2016.