Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp um útboð á viðbótarþorskkvóta. Frumvarpið felur í sér að ef heildarafli þorsks verður aukinn fyrir næsta fiskveiðiár skuli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bjóða þann viðbótarkvóta út til hæstbjóðanda. Í greinargerð með frumvarpinu segir að lagabreytingin sem lögð sé til byggið „ á því að við úthlutun veiðileyfa sé æskilegast að lögmál markaðarins ráði við nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar.“
Þorskkvótinn hefur verið aukin á milli allra fiskveiðiára síðastliðinn áratug. Milli fiskveiðiáranna 2014/2015 og 2015/2016 var hann aukinn um um 21 þúsund tonn og á yfirstandandi fiskveiðiári um fimm þúsund tonn. Alls hefur kvótinn verið aukinn um 114 þúsund tonn frá fiskveiðiárinu 2007/2008 og er nú í 244 þúsund tonnum.
Var eitt helsta kosningaloforð Viðreisnar
Markaðsleið í sjávarútvegi var mikið til umræðu í aðdraganda síðustu kosninga. Viðreisn, sem nú situr í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð, lagði til að mynda mikla áherslu á hana. Í grein sem Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, skrifaði á Kjarnanum 15. júlí 2016 boðaði hann að afgjald ætti að ráðast á markaði þar sem ákveðinn hluti kvótans yrði boðinn upp á hverju ári. Um væri að ræða sáraeinfalda lausn: „Á hverju ári fer ákveðið hlutfall kvótans á uppboðsmarkað, til dæmis 5 til 8%. Tekjur ríkisins ráðast ekki af því hvaða flokkar eru í ríkisstjórn heldur af markaðsaðstæðum á hverjum tíma.“
Þessar kröfur voru gefnar eftir þegar ríkisstjórn var mynduð. Í stjórnarsáttmálanum segir að kanna eigi kosti þess að „í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna.“ Enginn tímarammi eða útfærsla á þessari vinnu var tiltekin.
Komist frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar á dagskrá, sem er alls ekki víst, munu þingmenn Viðreisnar þurfa að taka afstöðu til þess hvort að setja eigi nýjan þorskkvóta á markað eða ekki.