Þingmenn úr fjórum flokkum hafa lagt fram nýtt frumvarp um að leyfa sölu áfengis í verslunum. Frumvarpið felur í sér að einkaleyfi ÁTVR á sölu áfengið verði afnumið og að sala á því verði heimiluð í sérverslunum, í sérrýmum innan verslanna eða yfir búðarborð. Þetta er staðfestir Pawel Bartoszek, einn flutningsmanna frumvarpsins, við Kjarnann.
Þingmennirnir sem leggja frumvarpið fram koma úr Sjálfstæðisflokki, Viðreisn, Bjartri framtíð og Pírötum. Þeir eru Teitur Björn Einarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Hildur Sverrisdóttir úr Sjálfstæðisflokki, Pawel Bartoszek úr Viðreisn, Nichole Leigh Mosty úr Bjartri framtíð og Píratarnir Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Viktor Orri Valgarðsson.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans liggur ekki fyrir stuðningur við frumvarpið hjá öllum þingmönnum flokkanna en Pawel segist telja að það sé nokkuð öruggur meirihluti á þinginu fyrir málinu. Alls eru þingmenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Pírata 42 talsins. Því mættu tíu þingmenn flokkanna vera á móti frumvarpinu, það yrði samt sem áður með meirihluta.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, stóð að framlagningu sambærilegs frumvarps í tvígang á síðasta kjörtímabili. Í síðara skiptið voru flutningsmenn frumvarpsins 16 talsins. Þeir komu þá úr röðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Bjartrar framtíðar og Pírata. Af þeim eru tíu enn á þingi og fjórir ráðherrar í nýrri ríkisstjórn. Það eru þau Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
ÁTVR rekur 50 verslanir
Íslenska ríkið hefur rekið einkasölu áfengis hérlendis frá árinu 1922, en þá hét fyrirtækið ÁVR. Tóbakseinkasala ríkisins tók til starfa 1932 og fyrirtækin voru sameinuð árið 1961 undir nafninu Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR).
ÁTVR rekur 50 verslanir víðsvegar um landið þar sem áfengi er selt, þar af 16 stórverslanir. Tekjur ÁTVR á árinu 2015 voru 29,4 milljarðar króna. Þar af komu 19,8 milljarðar króna í kassann vegna sölu áfengis en 9,5 milljarðar króna vegna tóbakssölu.
Alþingi tekur ákvörðun um hvert áfengis- og tóbaksgöld eigi að vera. Áfengisgjald sem ÁTVR greiddi til ríkissjóðs 2015 var 9.230 milljónir króna, eða 47 prósent af tekjum ÁTVR vegna sölu áfengis.
Vill ekki að Hagar komist í yfirburðarstöðu
Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, hefur ítrekað gert mögulegt afnám einkaleyfis á sölu áfengis að umtalsefni í inngangi ársskýrslna fyrirtækisins. Í ársskýrslu ársins 2015 sagði hann að fórnarkostnaður við að gefa sölu áfengis frjálsa yrði hár.
„Málið er einmitt að einkaaðilar eru ótrúlega góðir að selja. Þeir vilja alltaf selja meira og meira, auka markaðshlutdeildina og auðvitað skila hagnaði í vasa eigendanna. Það er kjarni frjáls markaðar og samkeppnisrekstrar. Þar eru einkaaðilar bestir. Þess vegna eru þeir ekki heppilegir þegar markmiðið er ekki að auka söluna eða hagnast á henni heldur að þjónusta almenning við að kaupa og neyta vöru sem getur verið mjög skaðleg heilsu manna. Þá er best að hafa hlutlausan aðila sem hefur engan persónulegan ávinning af sölunni. Ekki þarf að leita lengra en til Danmerkur til þess að átta sig á þessu. Þar sjá einkaaðilar um áfengissöluna og hirða ágóðann. Neysla áfengis á mann í Danmörku er miklu meiri en á Íslandi og kostnaður danska samfélagsins af misnotkun áfengis gríðarlegur. Skattborgurum er sendur reikningurinn.“
Ívar beindi síðan spjótum sínum að Högum, stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi sem rekur meðal annars Bónus og Hagkaup. Hagar hafa ítrekað lýst því yfir að fyrirtækið vilji að áfengissala ríkisins verði lögð niður. Ívar hefur töluverðar áhyggjur af markaðshlutdeild Haga. „Nú þegar er keðjan með ríflega 50% af matvörumarkaðinum á sinni hendi. Með helming af áfengissölunni myndi veltan hjá matvörurisanum aukast um rúmlega 12 þúsund milljónir á ári. Nú þegar ber hann ægishjálm yfir allri matvöruverslun í landinu. Með áfengissölunni væri matvörurisinn kominn í algera yfirburðastöðu. Varla er það til hagsbóta fyrir neytendur.“
Fréttin var uppfærð 15:45 eftir að frumvarpið var birt á vef Alþingis.