„Ég get fullvissað hv. þingmann og þingheim allan um að sá ráðherra sem hér stendur mun ekki gera grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu. Það stendur ekki til. Fyrsta verk mitt er að vinna að heildstæðri heilbrigðisstefnu áður en nokkuð annað verður gert,“ sagði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra á þingi í morgun.
Óttarr svaraði nokkrum óundirbúnum fyrirspurnum frá stjórnarandstöðuþingmönnum um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, og Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurðu hann öll út í einkarekstur og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, í ljósi frétta af áformum Klíníkurinnar í Ármúla um rekstur legudeildar.
„Að undanförnu hefur verið til umræðu umsókn einkaaðila um að fá samning við Sjúkratryggingar Íslands um að opna nýja starfsemi sem felur í sér sérhæfðar skurðaðgerðir og legudeild fyrir allt að fimm daga. Þetta er í raun og veru ekki hægt að kalla neitt annað en einkarekið sjúkrahús enda líta bæði landlæknir og einkaaðilinn, Klíníkin sjálf, á starfsemina sem sérhæfða sjúkrahúsþjónustu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í fyrstu fyrirspurninni. Hún sagði að ef starfsemin verði skilgreind þannig myndi það koma í hlut Óttarrs að ákveða hvort veita eigi starfsleyfi. „Hjá ráðherra hvílir því risastór ákvörðun sem haft getur óafturkræf áhrif á íslenskt heilbrigðiskerfi og væri í raun grundvallarstefnubreyting í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Það er ólíku saman að jafna stofurekstri sjálfstætt starfandi sérfræðilækna, einyrkjastarfsemi og því sem hér er á döfinni, því að þarna er í raun farið í kjarnastarfsemi Landspítalans og eftir atvikum annarra sjúkrahúsa út um land.“ Katrín spurði Óttarr hvort ekki væri hægt að treysta því að hann myndi standa vörð um hið opinbera heilbrigðiskerfi.
„Það er ekki ætlun mín að einkavæða kerfið eða auka stórkostlega einkarekstur í kerfinu. Það er ljóst að íslenska heilbrigðiskerfið er opinbert heilbrigðiskerfi að því leytinu til að greitt er fyrir mestalla heilbrigðisþjónustu af opinberu fé. Það er gert með yfirumsjón og undir ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins og opinberra aðila. Það er engin ætlun mín, eða annarra, held ég, og enginn pólitískur vilji til þess að gera breytingar þar á,“ sagði Óttarr í svari við fyrirspurn Halldóru.
Hins vegar sagði Óttarr að hluti af rekstri og vinnu í íslenska heilbrigðiskerfinu sé nú þegar unninn af einkaaðilum, bæði sjálfseignarstofnunum og sjálfstætt starfandi sérfræðingum. „En það er allt gert með opinberu fé með eftirliti, umsjón og ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins og opinberra heilbrigðisyfirvalda. Það stendur ekki til að gera breytingar þar á,“ sagði ráðherrann. Hann sagðist vilja að stefnumótun heilbrigðisstefnu verði unnin á breiðum grundvelli og með eins lýðræðislegum vinnubrgöðum og hægt er.