Tæplega 136 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá Íslandi í janúar síðastliðnum. Aldrei áður hefur mælst jafn mikil aukning í janúar milli ára frá því að Ferðamálastofa hóf talningar á Keflavíkurflugvelli.
Aukningin milli ára er 58.400 manns, eða 75,3 prósent. Hingað til hefur aukningin mest orðið 40,1 prósent milli áranna 2013 og 2014. Í janúar árið 2013 komu ríflega 33 þúsund erlendir ferðamenn hingað til lands.
Bretar og Bandaríkjamenn voru samanlagt um helmingur ferðamanna sem komu til landsins í nýliðnum mánuði. Bretar voru 28,2% og Bandaríkjamenn voru 22,8%. Þessar tvær þjóðir eru langfjölmennastar ferðamanna hér á landi, en þar á eftir koma Kínverjar, sem voru 5,4% og Þjóðverjar sem voru 4,4%. Frakkar voru 3,3 prósent, Kandabúar 3,1%, Japanir 2,4% og Hollendingar 2,2%.
Bandaríkjamönnum fjölgaði langmest milli ára í janúar, en þeir voru ríflega tvöfalt fleiri í ár en í fyrra og fjölgaði um 16.500 manns. Bretum fjölgaði um 39,4% milli ára. Fjöldi Kínverja tvöfaldaðist, 83,7% aukning var meðal Þjóðverja og fjöldi Kanadamanna þrefaldaðist. Þessar fimm þjóðir báru uppi 62,9% af aukningu ferðamanna milli ára.