Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hélt því fram í fréttum RÚV í gær að það væru augljós einkenni fasteignabólu á Íslandi nú um stundir. Slíkar raddir hafa heyrst víðar enda hefur fasteignaverð hækkað hratt og leiguverð, sé mið tekið af vísitölu leiguverðs hjá Þjóðskrá, hefur gert það einnig. Mikil eftirspurn er eftir íbúðum og seljast þær hratt þessi misserin.
Í fyrra hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 15 prósent en fá ef þá nokkur fordæmi eru fyrir svo mikilli hækkun á einu ári hér á landi.
Þrátt fyrir þessa miklu hækkun þá benda flestar spár til þess að fasteignaverðið muni halda áfram að hækka á næstu misserum og segir í nýrri skýrslu Arion banka um fasteignamarkaðinn að gera megi ráð fyrir allt að 30 prósent hækkun á fasteignaverð á næstu þremur árum.
En er þá fasteignabóla, ef verðið er að rjúka svona upp? Er innistæða fyrir þessum hækkunum? Eflaust er það spurning hvernig skilgreina eigi fasteignabólu, en vandinn við efnahagsbólur, sem svo eru kallaðar af hagfræðingum sérstaklega, er að þær koma sjaldnast í ljós fyrr en þær eru sprungnar með slæmum afleiðingum fyrir almenning. Þá fyrst hafa fræðimenn fullvissu fyrir því að um bólu hafi verið að ræða.
Deila má um hvaða tilgangi það þjónar yfir höfuð að nota slík hugtök um stöðu mála á hverjum tíma, en í ljósi sögunnar getur ekki talist undarlegt að þetta berist í tal.
Nokkur atriði skipta sköpum, þegar kemur að hækkuninni á undanförnum árum.
- Eftir hrunið var nánast ekkert byggt af fasteignum í vel á þriðja ár, og hefur ekki enn tekist að byggja upp nægilegan byggingarhraða til að halda í við náttúrulega eftirspurn á markaðnum. Talið er að það þurfi að byggja um 1.800 til 2.000 nýjar íbúðir á ári til að anna eftirspurn og fólksfjölgun, en eins og staða mála hefur verið á undanförnum árum þá hefur það ekki náðst. Mikið vantar upp svo að jafnvægi náist og hefur það verið nefnt að í það minnsta fimm til tíu þúsund íbúðir þurfi að byggjast upp á höfuðborgarsvæðinu á næstu þremur árum til að staðan batni.
- Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavík, hefur gagnrýnt Reykjavíkurborg fyrir lóðaskort og að ekki gangi nægilega hratt að byggja upp íbúðir í borginni. Höfuðborgin sé búin að draga lappirnar í þessum efnum. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði í samtali við RÚV í gær að hann vildi að fleiri sveitarfélög kæmu í það með Reykjavík að bjóða upp á fleiri lóðir til uppbyggingar.
- Launahækkanir og hröð aukning kaupmáttar hjá almenningi hefur vafalítið ýtt undir fasteignaverðshækkanir. Samið var um á bilinu 20 til 30 prósent launahækkanir til þriggja ára á síðasta ári, hjá flestum stéttum, og má gera ráð fyrir að þetta ýti undir möguleika fólks til að greiða hærra verð fyrir íbúðina. Lykilatriðið þegar kemur að auknum kaupmætti launa hefur verið lág verðbólga. Hún mælist nú 1,9 prósent en það sem heldur lífi í henni, ef svo má að orði komast, er hröð hækkun á fasteignaverði.
- Styrking krónunnar nam um 18 prósentum í fyrra og dró hún úr verðbólguþrýstingi, þar sem innfluttar vörur verða ódýrari þegar krónan er að styrkjast. Sé litið til hækkunar fasteignaverðsins á höfuðborgarsvæðinu út frá Bandaríkjadal þá nam hækkunin meira en 30 prósentum. Í sögulegu samhengi hefur mikil styrking oftar en ekki ýtt undir mikla einkaneyslu og hefur það gerst núna einnig.
- Mikill vöxtur í ferðaþjónustunni hefur haft mikil áhrif á fasteignamarkaðinn, þar sem fjölmargar íbúðir - einkum miðsvæðis í Reykjavík - eru leigðar út í ferðamanna. Á síðustu árum hafa þær verið í kringum 3.000 talsins.