Samninganefndir sjómanna og útvegsmanna fóru á fund Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í Sjávarútvegshúsinu seint í gærkvöldið eftir að hafa setið á samningafundum í Karphúsinu stóran hluta dags.
Í tilkynningu frá sjómönnum segir að góður gangur hafi verið í viðræðum undanfarna daga. „Viðræður SFS og sjómannasamtakanna hafa gengið vel liðna daga og sameiginlegur skilningur er með aðilum um helstu kröfur. Líkt og komið hefur fram í umræðu hafa sjómenn talið að leiðréttingar sé þörf á ójafnræði í skattalegri meðferð á dagpeningum. Sjómenn telja mikilvægt að úr þessu verði bætt. Þar sem um réttlætismál er að ræða hefur þetta veruleg áhrif í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Ráðherra hefur lagt til að fram fari heildstæð greining og skoðun á fæðis- og dagpeningum almennt á vinnumarkaði. Greining þessi er vafalaust jákvæð. Enn stendur þó útaf að fá viðurkenningu stjórnvalda á skattalegri meðferð á dagpeningagreiðslum til sjómanna,“ segir í tilkynningu sjómanna.
Þorgerður Katrín sagði að fundi loknum í gærkvöldi að fundarmenn hefðu farið yfir stöðuna og skipst á skoðunum.
„Þeir voru einfaldlega að upplýsa mig nákvæmlega um stöðuna. Svo voru skoðanaskipti um eitt og annað," sagði Þorgerður Katrín við RÚV að fundi loknum. „Meðal annars um fæðis- og dagpeninga. Ég lagði fram tillögu meðal annars um heildstæða nálgun og greiningu, og myndum fara hratt í það að skoða fæðis- og dagpeninga á almennum vinnumarkaði með tilliti til skattaívilnana. Við sjáum þá hvernig staðan er og hægt að bregðast við óskum sjómanna. Það er það sem við erum tilbúin til þess að gera,“ sagði ráðherra.
Í viðtalið við mbl.is sagði Þorgerður Katrín að það væri sjómanna og útgerðar að leysa deiluna með samningum, en verkfall sjómanna og kjaradeilunar hafa verið óleystar frá 14. desember
„Deiluaðilar eru búnir að deila í á tíundu viku og þeir hljóta að ráða við það að semja í þessari mikilvægu atvinnugrein. Það er einföld krafa sem við hljótum öll að gera til þeirra. Það er mjög sérstakt og eiginlega einsdæmi ef ríkisvaldið á eftir á, þegar menn eru nokkurn veginn að koma sér saman, að koma síðan og uppfylla kröfu sem gæti sent ekki réttu skilaboðin inn í komandi kjaradeilur,“ sagði Þorgerður Katrín.