Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði leiðréttingaraðgerðar síðustu ríkisstjórnar hafa verið ójafnaðaraðgerðir á þingi í dag. „Leiðréttingin var ekki aðgerð til að jafna kjör.“ Katrín var upphafsmaður umræðu um skýrslu um það hvernig skuldaniðurfærslan, leiðréttingin svokallaða, skiptist á milli landsmanna. Skýrslan var gerð opinber í janúar síðastliðnum, þrátt fyrir að hafa verið tilbúin fyrir kosningar.
Katrín vakti athygli á því að hvorki þingmenn frá Viðreisn né Bjartri framtíð tóku þátt í umræðunum. Hún sagði það endurspegla að ekkert væri minnst á húsnæðismál í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Búið væri að leiða í ljós að niðurfærslan hafi endað að stærstum hluta hjá þeim tekjuhæstu og eignamestu. Unga fólkið hafi setið eftir og það bíði eftir auknum úrræðum bæði á leigu- og eignamarkaði.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra varði leiðréttinguna með svipuðum hætti og hann hefur áður gert. Hann talaði um fyrri aðgerðir, líkt og 110 prósenta leiðina, sem hefðu ekki dugað til að takast á við erfiða skuldastöðu heimilanna eftir hrunið, sem hafi verið orðin að sjálfstæðu efnahagslegu vandamáli. Hann sagði það hafa verið réttlætisrök, jafnræðisrök og sanngirnisrök fyrir því að ráðast í niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðislánum. Hann sagði einnig að leiðréttingin hafi ekki verið tekjujöfnunaraðgerð, hún hafi verið sértæk aðgerð sem var beint að þeim sem skulduðu og áttu heimili. „Hún heppnaðist frábærlega þessi aðgerð.“ Náðst hafi að bæta skuldastöðuna verulega, mun meira en á öðrum Norðurlöndunum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sem var í forsvari fyrir leiðréttingaraðgerðirnar, tók til máls í umræðunum. Hann lýsti yfir ánægju með það hvernig Bjarni Benediktsson varði aðgerðirnar og gagnrýndi upplegg Vinstri grænna „og félaga“ með skýrslunni sjálfri og umræðum um hana. Það sé fráleitt að ræða það hvernig leiðréttingin dreifðist á alla. Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tók í sama streng og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og sagði að leiðréttingin hefði verið „ein farsælasta aðgerð sem ráðist hefur verið í.“ Hún hafi verið sannkölluð millistéttaraðgerð.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gerði sérstaklega að umtalsefni að skýrslunni um niðurfellinguna hafi verið haldið frá almenningi, og sagði það alvarlegt mál. Það hafi verið sífelldur feluleikur með það hvernig fjármunirnir skiptust milli landsmanna, og að leigjendur, yngra fólk og landsbyggðaríbúar hefðu setið eftir. Þá efaðist hann um að forsætisráðherra myndi birta næstu óþægilegu skýrslu. „Það þurfti nýjan fjármálaráðherra til að birta þessa skýrslu.“ Viktor Orri Valgarðsson, þingmaður Pírata, spurði hvort nú hafi ekki myndast fordæmi, og þeir sem ekki ættu húsnæði nú fengju hækkun síðustu ára bætta úr ríkissjóði líkt og aðrir hefðu fengið skuldastöðu sína bætta.