Þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um kjararáð. Flokkurinn vill að kjararáð kveði upp nýjan úrskurð sem feli í sér launalækkun alþingismanna og ráðherra sem samsvari því að laun þeirra fylgi almennri launaþróun frá 11. júní 2013.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pírötum, sem bjóða öðrum þingmönnum að vera með á málinu. Tilefnið er að í morgun var sagt frá því að ASÍ teldi að forsendur kjarasamninga 70 prósent launafólks væru brostnar. Eftir viku lýkur mati á forsendum þess að segja upp kjarasamningum milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins.
„Alþingi hefur 7 daga til að bregðast við með góðu fordæmi og fyrirskipa kjararáði að lækka laun þingmanna, ráðherra og annarra sem heyra undir ráðið til samræmis við launaþróun frá 2013 sem kjarasamningar flestra launþega miða við. Þetta frumvarp gerir það.“
Samkvæmt frumvarpi Pírata verður kjararáði gert samkvæmt lögum að kveða upp nýjan úrskurð sem feli í sér launalækkun alþingismanna og ráðherra. Ákvörðunin eigi að taka gildi ekki síðar en 28. febrúar, sem er í næstu viku. „Jafnframt skal kjararáð svo fljótt sem auðið er endurskoða kjör annarra er undir það heyra, til samræmis. Ákvæði þetta gildir ekki um forseta Íslands.“