Forsendur kjarasamninga
Samtaka atvinnulífsins og
ASÍ eru í hættu og verða forsendur
metnar í vikunni. Svo gæti farið
að samningar opnist um mánaðamótin, segir í Fréttablaðinu í dag, en það er ekki síst ákvörðun kjararáðs frá kjördegi 29. október sem situr í forystufólki verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. „Eins og staðan er í dag er forsendubresturinn
augljós,“ segir
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í viðtali við Fréttablaðið.
Með ákvörðun kjararáðs voru laun forseta Íslands, þingmanna og ráðherra hækkuð um 30 til 40 prósent, en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ákvað að þiggja ekki hækkunina og hefur fært mismuninn í góðgerðarstarf.
Að mati Gylfa hafa laun annarra hópa, eins og alþingismanna og ráðherra, hækkað umfram það sem menn ætluðu og þannig grafið undan vinnulaginu sem hafði verið horft til. Þá hafi ekki verið staðið við aðgerðir í húsnæðismálum, en mikil þörf er á því að auka framboð húsnæðis til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 15 prósent í fyrra og er því spáð að hækkunin verði jafnvel enn meiri á þessu ári. Meginástæðan er of lítið framboð húsnæðis.
Forsendunefnd ASÍ og SA hittist í vikunni og fer yfir stöðuna og forsendur samningana, að því er fram kemur í Fréttablaðinu. „Við þurfum síðan að skila niðurstöðu innan átta daga um hvort forsendurnar halda eða ekki. Verði niðurstaðan að forsendur séu brostnar fer málið til samninganefndar ASÍ og næstu skref verða ákveðin,“ segir Gylfi við Fréttablaðið.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir stöðuna óljósa en að málin skýrist í þessari viku. „Við bíðum niðurstöðu forsendunefndarinnar en á meðan er samningur í gildi. Úrskurður kjararáðs frá því í október er sannarlega ekki að hjálpa til enda ályktuðum við hjá SA harð- lega gegn þeirri ákvörðun,“ segir Halldór Benjamín í viðtali við Fréttablaðið.