Verðbólga á Íslandi er lág vegna þess að erlend viðskiptakjör, t.d. verð á olíu og annari hrávöru, eru hagstæð. Innlend verðbólga án húsnæðisverðs er um tvö prósent og að viðbættum húsnæðisliðnum væri verðbólgan enn hærri. Þetta kom fram á fundi fulltrúa peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í dag.
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði hver hluti innfluttrar verðbólgu væri í því að verðbólga hefði verið lág hér um árabil, en hún hefur nú verið undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans í þrjú ár. Katrín Ólafsdóttir, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík og nefndarmaður í peningastefnunefnd, svaraði því til að erlenda verðbólgan drægi verðbólgu á Íslandi niður. Innlend verðbólga án húsnæðisverðs væri um tvö prósent og með húsnæðisverði enn hærri. Í raun mætti segja að ytri aðstæður toguðu verðbólgu niður, innlend verðbólga án húsnæðisverð væri í kringum tvö prósent og svo togar húsnæðisverðið verðbólgu upp. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði það rétta ályktun að erlend viðskiptakjör réðu mestu um að verðbólgan væri lág.
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur haldist mjög lágt undanfarin misseri þótt það hafi hækkað aftur á síðustu mánuðum. Á sama tíma hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 70 prósent frá árslokum 2010. Peningastefnunefndin sagðist ekki sjá nein merki um bólu á húsnæðismarkaði þrátt fyrir þessar miklu hækkanir. Þær orsakist fyrst og fremst af markaðsaðstæðum, en eftirspurn eftir húsnæði á Íslandi er miklu meira en framboð.
Verðbólga á Íslandi er sem stendur 1,9 prósent. Í síðasta riti Peningamála kom fram að spá Seðlabankans geri ráð fyrir að verðbólga verði um tvö prósent fram yfir mitt ár, en taki þá að þokast upp á við og verði komin í markmið á seinni hluta ársins.