Kaupþing vinnur nú að því að ganga frá sölu á 40 til 50 prósenta hlut félagsins í Arion banka í lokuðu útboði til bandarískra fjárfestingasjóða og íslenskra lífeyrissjóða. Kaupverðið mun þá nema á bilinu 70 til 90 milljörðum íslenskra króna en væntingar eru um að viðskiptin verði kláruð á allra næsta vikum, samkvæmt heimildum Markaðarins, en fjallað er um málið á forsíðu Fréttablaðsins í dag.
Ríkið á 13 prósent hlut í bankanum en kröfuhafar Kaupþings 87 prósent.
Söluandvirðið færi í að gera upp 84 milljarða veðskuldabréf sem Kaupþing gaf út til íslenska ríkisins í ársbyrjun 2016, segir í frétt Fréttablaðsins.
Kaupsamningar við bandarísku sjóðina eru langt komnir en áformað er að fjórir fjárfestingasjóðir kaupi allt að 25 prósenta hlut í bankanum. Að minnsta kosti tveir þessara sjóða – Taconic Capital og Och-Ziff Capital – eru jafnframt á meðal kröfuhafa Kaupþings. Enginn einn þeirra verður með meira en 10 prósenta hlut í Arion banka en Taconic Capital hyggst vera með stærsta einstaka eignarhlutinn á meðal sjóðanna.
Sá vogunarsjóður er langsamlega umsvifamestur í kröfuhafahópi Kaupþings og átti í lok síðasta árs um 40 prósent allra krafna á hendur félaginu. Ríkið hefur forkaupsrétt að Arion banka ef Kaupþing hyggst selja hlut í bankanum á genginu 0,8 eða lægra miðað við eigið fé.
Samningar við lífeyrissjóðina eru ekki jafn langt á veg komnir en af hálfu Kaupþings er engu að síður búist við að niðurstaða fáist á næstunni um hversu mikil aðkoma þeirra verður, að því er segir í Fréttablaðinu.
Væntanleg sala Kaupþings á tugprósenta hlut í Arion í lokuðu útboði, sem ekki var útlit fyrir í ársbyrjun, þýðir að fyrirhugað almennt hlutafjárútboð bankans fer fram seinna en áður var áætlað. „Ekkert hefur breyst varðandi áform Kaupþings um að skrá bankann á markað á Íslandi og í Svíþjóð en samkvæmt þeirri tímalínu sem félagið vinnur núna eftir verður útboðið aftur á móti haldið í fyrsta lagi í maí eða júní á þessu ári. Sá hlutur sem verð- ur þá boðin til sölu gæti verið um 30 til 40 prósent,“ segir í frétt Fréttablaðsins.