Þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra beiti sér fyrir því að NA/SV flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli verði opnuð á ný svo fljótt sem verða megi. Þingmennirnir vilja að ráðherrann, Jón Gunnarsson, láti útbúa aðgerðaáætlun í þessa veru og upplýsi Alþingi um innihald hennar eigi síðar en í maí 2017.
„Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að neyðarbrautin verði opnuð á ný þar til fundin hefur verið framtíðarlausn fyrir eitt mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar. Í því skyni er lagt til að ráðherra beiti sér í málinu, hvort heldur með sérstakri lagasetningu um Reykjavíkurflugvöll eða á annan hátt, og greini Alþingi frá aðgerðaáætlun um opnun neyðarbrautarinnar eigi síðar en í maí 2017,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Flugbrautinni sem um ræðir var lokað í kjölfar dóms Hæstaréttar um mitt ár í fyrra, um að ríkinu væri skylt að loka flugbrautinni í samræmi við samkomulag milli ríkis og borgar. Hafnar eru framkvæmdir við norðurenda flugbrautarinnar.