Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað tvo starfshópa sem eiga að vinna tillögur að aðgerðum til úrbóta vegna ábendinga sem komu fram í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.
Skipun starfshópanna er fyrsti áfangi í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar og fjármála- og efnahagsráðherra gegn skattundanskotum og skattsvikum, að því er segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Annar starfshópurinn á að kanna og greina nánar niðurstöður skýrslunnar um milliverðlagningu í utanríkisviðskiptum, þar með talið faktúrufölsun, með tilliti til mögulegra skattundanskota og nýtingar skattaskjóla í því sambandi. Í hópnum eru fulltrúar frá fjármála- og efnhagsráðuneytinu, Seðlabanka Íslands, Hagstofu Íslands, tollstjóra, skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra. Hópurinn á að skila skýrslu til ráðherra 1. maí næstkomandi, ásamt tillögum að aðgerðum sé þess þörf.
Hinn starfshópurinn á að kanna og greina nánar umfang og áhrif skattundanskota og skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap, þar með talið afkomu hins opinbera, og gera tillögur að því hvernig megi minnka svarta hagkerfið og þar með skattundanskot og skattsvik. Sá hópur á einnig að skoða tillögur fjármálaráðherra um möguleikann á því að takmarka notkun reiðufjár við greiðslu launa og kaup á dýrum hlutum. Fulltrúar frá öllum fyrrnefndum stofnunum sitja í þeim starfshóp auk fulltrúa frá innanríkisráðuneytinu. Þessi starfshópur á að skila skýrslu til ráðherrans þann 15. maí næstkomandi.