Eignir innlánsstofnana námu 3.301,6 milljörðum króna í lok janúar og hækkuðu um 90,2 milljarða króna í mánuðinum, samkvæmt nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands. Það er upphæð sem nemur rúmlega einni og hálfri árlegri landsframleiðslu, sé miðað við tölur Hagstofu Íslands fyrir árið 2015.
Innlendar eignir innlánsstofnana námu 3.022,8 milljörðum króna og hækkuðu um 62,8 milljarða króna í mánuðinum. Erlendar eignir námu 278,8 milljörðum króna og hækkuðu um 27,4 milljarða króna í mánuðinum.
Innlendar skuldir voru 2.108,4 milljarðar króna og hækkuðu um 33,5 milljarða króna í mánuðinum. Þar af eru innlán landsmanna og fyrirtækja, 1.650 milljarðar króna.
Erlendar skuldir námu 547,7 milljörðum króna og hækkuðu um 39,4 milljarða króna í janúar. Eigið fé innlánsstofnana nam 645,5 milljörðum króna í lok janúar og hækkaði um 17,3 milljörðum í mánuðinum, að því er fram kemur á vef Seðlabanka Íslands.
Íslenska ríkið er stærsti eigandi fjármálakerfisins nú um stundir. Það á 98,2 prósent hlut í Landsbankanum, Íslandsbanka að fullu og 13 prósent hlut í Arion banka.
Ný útlán að frádregnum uppgreiðslum námu 18,5 ma.kr. í janúar, þar af eru verðtryggð lán að frádregnum uppgreiðslum 9,8 milljarðar króna., óverðtryggð lán 6,9 milljarðar króna og lán í erlendum gjaldmiðlum 2,5 milljarðar króna.