Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gert athugasemdir við verklag og eftirlit vegna viðskipta við nokkra af viðskiptavinum Borgunar hf. á erlendum mörkuðum. Meginmarkmið athugunar FME var að kanna hvort lögum nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka væri fylgt, að því er segir í tilkynningu frá Borgun.
Í tengslum við það kannaði FME verklag félagsins við áreiðanleikakannanir á viðskiptamönnum, reglubundið eftirlit, tilkynningaskyldu og innra eftirlit. Niðurstaða athugunar FME liggur nú fyrir og gerði eftirlitið athugasemdir, aðallega í tengslum við umfang og nákvæmni áreiðanleikakannana, verklag og verkferla.
Ekki kemur fram í tilkynningunni frá Borgun um hvað nákvæmlega ræðir, og þá hefur FME heldur ekki birt niðurstöður athugunar sinnar á vef sínum.
„Borgun tekur athugasemdum FME alvarlega og mun tryggja í samstarfi við FME að starfsemin fullnægi betur en nú er ítrustu skilyrðum laga m.t.t. könnunar á áreiðanleika viðskiptamanna og skyldum þáttum, en lítið hefur reynt á túlkun þessara reglna, sem eru um ýmislegt matskenndar, í íslenskri stjórnsýslu- og réttarframkvæmd. Borgun hefur þess í stað reitt sig á reglur, túlkun og úttektir kortafélaganna Visa og MasterCard sem byggja á sömu evrópulögum og hér um ræðir. Það er brýnt að taka fram að hvorki er um að ræða grun um peningaþvætti né fjármögnun hryðjuverka. Borgun hefur þegar hafist handa við að uppfylla fyrirmæli FME, meðal annars með því að segja upp viðskiptasambandi við nokkra aðila,” segir Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar í tilkynningunni.
Stefnt er að því að allri vinnu af hálfu Borgunar til að uppfylla kröfur FME um úrbætur verði lokið innan tveggja mánaða, segir í tilkynningunni.
Rekstur Borgunar hefur gengið vel á undanförnum árum. Hagnaður ársins af reglulegri starfsemi var undir einum milljarði króna árið 2013.
Í fyrra var hann rúmlega 1,6 milljarðar króna. En hlutdeild fyrirtækisins í sölunni á Visa Europe skiptir mestu máli þegar virðisaukning fyrirtækisins er metin. Sú sala skilaði Borgun 6,2 milljörðum króna.
Samtals verða greiddir 7,7 milljarðar króna í arðgreiðslur til eigenda Borgunar vegna síðustu þriggja ára.