Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra telur enga ástæðu til þess að útvista starfsemi þeirra eftirlitsstofnana sem heyra undir ráðuneyti hans. Um er að ræða embætti landlæknis, Lyfjastofnun, Geislavarnir ríkisins og Sjúkratryggingar Íslands. Óttarr segir enn fremur að enginn umræddra eftirlitsstofnana hafi útvistað eftirlitsverkefnum og að engin könnun hafi farið fram á kostum og göllum þess að útvista starfsemina. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks og formanns efnahags- og viðskiptanefndar, um eftirlitsstofnanir.
Óli Björn lagði fram fyrirspurnir til allra ráðuneyta í desember þar sem hann spurði m.a. um kostnað við rekstur þeirra, starfsmannafjölda og hvort til álita hefði komið að útvista starfsemi eftirlitsstofnananna. Fyrirspurnirnar féllu niður við ráðherraskipti þegar ný ríkisstjórn tók við störfum í janúar. Óli Björn lagði þær í kjölfarið aftur fram. Þrír ráðherrar, til viðbótar við Óttarr, hafa svarað fyrirspurnum Óla Björns.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, svaraði Óla Birni líka í síðustu viku. Undir ráðuneyti hennar heyra mjög stórar eftirlitsstofnanir. Þær eru Samkeppniseftirlitið, Ferðamálastofa, Neytendastofa og Orkustofnun. Að auki heyra eftirlitsnefnd fasteignasala og endurskoðendaráð undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra en rekstur nefndanna er fjármagnaður af aðilum starfandi í greinunum með greiðslu sérstakra eftirlitsgjalda. Í svari sínu sagði Þórdís Kolbrún að útvistun einstakra eftirlitsverkefna geti verið skynsamleg í ákveðnum tilvikum en það þurfi að skoða vel og leggja mat á hvert tilvik fyrir sig. „Slík útvistun eftirlitsverkefna getur verið skynsamleg í þeim tilvikum þar sem um hreinar hlutlægar reglur er að ræða þar sem ekki er svigrúm til huglægs mats. Dæmi um útvistun slíkra eftirlitsverkefna er löggilding mælitækja sem er á ábyrgð Neytendastofu. Það kann að vera rétt að útvista fleiri slíkum verkefnum og þá er jafnframt mikilvægt að þeim sé útvistað til faggiltra aðila sem hafa þannig sýnt fram á hæfni til að sinna viðkomandi eftirliti. Í öðrum tilvikum, þegar eftirlit felur í sér eftirlit á grundvelli matskenndra reglna, á útvistun þess síður við og það á enn fremur við þegar um matskenndar hátternisreglur er að ræða.“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er með tvær eftirlitsstofnanir sem heyra undir hennar ráðuneyti. Þær eru Fiskistofa og Matvælastofnun. Í svari hennar við fyrirspurn Óla Björns segir að ýmiskonar verkefnum stofnanna sé þegar útvistað. Þorgerður Katrín segir að þegar um algerlega hlutlægar reglur sé að ræða getur verið rétt að kanna að faggiltir aðilar sinni eftirliti. Slíkt hafi t.d. gengið vel varðandi bifreiðaskoðun, vottun lífrænnar matvælaframleiðslu o.fl. „Ráðherra telur að útvistun eftirlitsverkefna kunni að vera hagkvæm og hyggst láta kanna hvort útvista megi verkefnum í ríkari mæli, t.d. í sambandi við endurskoðun á lögum um MAST. Þó ber að gera greinarmun á eftirliti sem felst í því annars vegar að ákvarða hvort aðilar uppfylli tiltekin hlutlæg viðmið og hins vegar eftirliti sem byggir á matskenndum reglum, sérstaklega þegar um er að ræða matskenndar hátternisreglur eins og getur komið upp í t.d. dýraverndunarmálum. Útvistun á síður við í tilfellum þar sem um huglægt mat er að ræða.“
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, er með boðvald yfir bæði Umhverfisstofnun og Mannvirkjastofnun. Hún segir í svari sínuað heildstæð könnun á kostum og göllum þess að eftirlitsstofnanir feli öðrum tiltekið eftirlit hafi ekki verið gerð í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu heldur hefur slíkt verið skoðað þegar tilefni hefur verið til við samningu lagafrumvarpa. Heimildir til að fela öðrum eftirlit sé þegar að finna víða í þeirri löggjöf sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og ýmsum verkefnum sé þegar útvistað. Í mörgum tilvikum hafi þótt skynsamlegt að fela skoðunarstofum eða öðrum eftirlitsaðilum tiltekna þætti eftirlits og þá sérstaklega í þeim tilvikum sem um umfangsmikið eftirlit er að ræða eða þegar þörf er á tiltekinni sérhæfingu, en slíkt sé matsatriði hverju sinni. „Beiting réttar- og þvingunarúrræða og stjórnsýsluviðurlaga þarf þó ætíð að vera í höndum viðkomandi stofnunar eða annarra opinberra eftirlitsaðila.“
Félags- og jafnréttismálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra eiga allir eftir að svara fyrirspurn Óla Björns. Engar eftirlitsstofnanir sem fyrirspurnin nær til falla undir dómsmálaráðuneytið og því svaraði ráðuneytið fyrirspurninni ekki efnislega.