Þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp um að endurreisa Þjóðhagsstofnun frá og með árinu 2018. Slík stofnun var starfrækt hérlendis á árunum 1974 til 2002 þegar hún var lögð niður af frumkvæði þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar. Sú ákvörðun Davíðs hefur alla tíð verið afar umdeild.
Tilgangur sérstakrar þjóðhagsstofnunar var að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum.
Í greinargerð með frumvarpi þingmannanna segir að Alþingi hafi samþykkt einróma 28. september 2010 þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem hafði komið út í apríl sama ár.. Þar eru talin upp 12 atriði sem þarf að endurskoða eða undirbúa löggjöf um. Ellefta atriði þeirrar upptalningar hljóði svo: „Stofnuð verði sjálfstæð ríkisstofnun sem fylgist með þjóðhagsþróun og semji þjóðhagsspá.“
Í Skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá september 2010 kemur fram að þingmannanefndin leggi til að slík stofnun starfi á vegum Alþingis og hafi það hlutverk að meta og gefa út spár fyrir efnahagslífið á sama hátt og Þjóðhagsstofnun gerði til 1. júlí 2002. Þrátt fyrir það hefur ekki að því orðið.
Í greinargerð þingmanna Samfylkingar segir: „Það er löngu tímabært að Alþingi bregðist við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar, sem fjallaði um hana, og endurreisi Þjóðhagsstofnun.[...]Vissulega er umhverfið breytt frá því að Þjóðhagsstofnun starfaði. Samtök aðila vinnumarkaðarins, hvort heldur er launafólks eða atvinnurekenda, annast greiningar í efnahagsmálum en einnig eru öflugar greiningardeildir innan bankanna og aðrar stofnanir, svo sem Viðskiptaráð, sem láta sig varða greiningar á efnahagshorfum. Allt eru þetta hagsmunasamtök af einhverju tagi og óábyrgt að láta sem ekki komi til greina að greiningar geti verið litaðar af hagsmunum þessara fyrirtækja, stofnana eða samtaka. Þess vegna er brýnt að í landinu sé stofnun sem treysta má með nokkurri vissu að dragi ekki taum ákveðinna hagsmunaafla í þjóðfélaginu heldur hafi þjóðarhagsmuni að leiðarljósi.“