Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að stjórnmálamenn í tveimur löndum hafi fengið sérstaka meðferð þegar unnið var úr upplýsingum í Panamaskjölunum. „Í báðum tilvikum var sérstakt „hit-job" undirbúið mánuðum saman. Það var í Argentínu og á Íslandi. Hvað eiga þessi tvö lönd sameiginlegt? Hverjum hafa þau boðið byrginn?“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslur sem Sigmundur Davíð hefur sett á Facebook. Tilefnið er umfjöllun um fyrri ummæli hans um aðkomu alþjóðlega fjárfestisins George Soros að leka Panama-skjalanna. Sigmundur Davíð segir að það sé óþarfi að kalla aðkomu Soros samsæriskenningu þar sem hún liggi fyrir. Það sem Argentína og Ísland eiga sameiginlegt er að hafa tekist á við alþjóðlega vogunarsjóði sem hafa hagnast á efnahagsáföllum ríkjanna tveggja.
Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra eftir að uppljóstrað var um það í umfjöllun um Panamaskjölin að hann hafi átt félagið Wintris ásamt eiginkonu sinni. Það félag er skráð til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum, var kröfuhafi í bú föllnu íslensku bankanna með kröfur upp á rúmlega 500 milljónir króna og var ekki tilgreint í hagsmunaskráningu Sigmundar Davíðs. Þegar Sigmundur Davíð var spurður um Wintris í sjónvarpsviðtali þá sagði hann ósatt um tilurð félagsins og tengsl sín við það.
Sigmundur Davíð hefur áður haldið því fram að samsæri hafi verið um að fella hann af stalli. Sú skýring er þannig að erlendir vogunarsjóðir sem áttu kröfur í bú föllnu bankanna á Íslandi, og sérstaklega vogunarsjóðsstjórinn George Soros, hafi ákveðið að losa sig við Sigmund Davíð.
Sigmundur Davíð sagði í viðtali við Útvap Sögu í júlílok 2016 að árás gegn honum hefði verið „undirbúin í sjö mánuði, í nokkrum löndum og beitt þessum gögnum, sem að [George] Soros vogunarsjóðskóngur hafði keypt og greinilega gat notað að vild.“
Sigmundur Davíð er þar líkast til að vísa í að George Soros hefur gefið fé til að styrkja starfsemi ICIJ, alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna sem unnu að birtingu Panama-skjalanna. Sú peningagjöf Open Society Foundations - sjóðs sem Soros stofnaði og stýrir - er hennar m.a. getið á heimasíðu ICIJ og engin leynd er yfir henni. Upplýsingar um George Soros eru í Panamaskjölunum. Í þeim kom fram að hann faldi fé og fjármagnaði verkefni úr fjölda aflandsfélaga sem eiga heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjunum, á Bermúda og í Panama.
Í viðtali við Morgunblaðið í ágúst 2016 sagði Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs að umfjöllun um Panamaskjölin á Íslandi hafi bara snúist um að fella Sigmund Davíð sem forsætisráðherra. „Það sáu auðvitað margir sem vildu ná sér niður á manninum sem hafði þvælst, svo eftir var tekið, fyrir kröfuhöfum bankanna og leyst úr stórum málum sem aðrir stjórnmálamenn höfðu gefist upp á að fást við. Miðað við það hversu ljótur leikur þetta var og hvernig þetta teygði sig út fyrir landsteinana þá kæmi mér ekki á óvart þó einhverjir úr hópi kröfuhafanna hafi ýtt undir þessa umfjöllun og séð sér verulegan hag í því að velta forsætisráðherra landsins úr sessi.“