Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú á ný stærstur stjórnmálaflokka á Íslandi í nýrri könnun MMR. Flokkurinn mælist með 26,9 prósenta fylgi en var með 24,4 prósent í síðustu könnun. Vinstri græn mældust með næst mest fylgi, eða 23,9 prósent, sem er lækkun um 3,1 prósentustig frá því í síðustu könnun. Allar fylgisbreytingar flokkanna eru þó innan vikmarka.
Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 12,2 prósent, 1,5% meira en í síðustu könnun. Fylgi Pírata mælist nánast það sama og síðast, 11,6 prósent samanborið við 11,9 prósent síðast. Fylgi Samfylkingarinnar mælist átta prósent, en mældist tíu prósent í síðustu viku, sem var í fyrsta skipti frá því um mitt síðasta ár sem flokkurinn mældist í tveggja stafa tölu.
Viðreisn mælist með 6,3 prósenta stuðning, en það var 6,2 prósent í síðustu könnun, og Björt framtíð mælist með 5,2 prósent en mældist með 5,4 prósent í síðustu könnun.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist þremur prósentustigum hærri nú en í síðustu viku, og segjast nú 37,9 prósent styðja ríkisstjórnina. Í byrjun febrúar mældist stuðningur við ríkisstjórnina 32,6 prósent.
Könnunin var gerð dagana 17. til 24. febrúar, og heildarfjöldi svarenda var 928 einstaklingar.