Í útboðsskilmálum Seðlabanka Íslands vegna fjárfestingarleiðarinnar var sérstaklega fjallað um kvaðir sem eiga við gjaldeyrisviðskiptin í lið 16. Þar sagði m.a.: „Verði brotið gegn kvöðunum um bann við hvers kyns ráðstöfun fjárfestingarinnar til fimm ára skal Seðlabankanum vera heimilt að innleysa þriðjung (1/3) fjárfestingarinnar (gjaldeyrisviðskipta), allt eins og greinir nánar í viðskiptaskilmálum vegna gjaldeyrisviðskipta samkvæmt fjárfestingarleið.“
Kjarninn spurðist fyrir um það hjá Seðlabanka Íslands hvort að reynt hafi á þessa útboðsskilmála. Þ.e. hvort bankinn hafi innleyst þriðjung fjárfestingar hjá einhverjum. Í svari bankans kemur fram að það hafi aldrei reynt ákvæðið. Samkvæmt því hefur engin brotið gegn kvöðunum um bann við ráðstöfun fjárfestinga sinna sem fjármagnaðar voru í gegnum fjárfestingarleiðina. Og bankinn því aldrei þurft að innleysa þriðjung fjárfestingar einhvers.
Mjög umdeild leið
Fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leiðin, var gríðarlega umdeild aðferð sem Seðlabankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka. Mun hagstæðara gengi.
Þeir sem tóku á sig „tapið“ í þessum viðskiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu komast út úr íslenska hagkerfinu með þær. Þeir sem „græddu“ voru aðilar sem áttu erlendan gjaldeyri en voru tilbúnir að koma til Íslands og fjárfesta fyrir hann. Seðlabankinn var síðan í hlutverki milligönguaðila sem gerði viðskiptin möguleg. Líkt og verslun sem leiddi heildsala og neytendur saman.
794 innlendir aðilar
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingarleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Í gegnum þau komu um 1.100 milljónir evra til landsins, sem samsvarar um 206 milljörðum króna. Ef þeir sem komu með þennan gjaldeyri til Íslands hefðu skipt þeim á opinberu gengi Seðlabankans, líkt og venjulegt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 milljarða króna fyrir hann. Virðisaukningin sem fjárfestingaleiðin færði eigendur gjaldeyrisins í íslenskum krónum var því 48,7 milljarðar króna. Af þeirri upphæð sem kom inn í landið kom 35 prósent frá innlendum aðilum, en alls tóku 794 slíkir þátt í leiðinni.
Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands var um 47,2 prósent af því fjármagnsinnstreymi sem kom til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina fest í skuldabréfum, um 40 prósent í hlutabréfum, 12,2 prósent í fasteignum og 0,6 prósent í verðbréfasjóðum.