Óhætt er að segja að styrking krónunnar upp á síðkastið hafi kallað fram nokkuð sterk viðbrögð, bæði á markaði og einnig hjá stjórnmálamönnum. Augljósir hagsmunir eru fyrir því hjá útflutningshlið hagkerfisins að krónan styrkist ekki of hratt og mikið, og er hún þegar farin að valdi töluverðum áhyggjum.
Reksturinn verður þá erfiður og í versta falli getur hann siglt í strand.
Sérstaklega er staðan viðkvæm hjá mörgum tækni- og sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa kostnað í krónum og tekjur í erlendri mynt. Launakostnaður hefur farið hækkandi og styrking krónunnar hefur leitt til þess að minna kemur í kassann að lokum.
Bandaríkjadalur kostar nú 106 krónur, evra 112 krónur og pundið 130. Ekki er nema eitt og hálft ár síðan staðan var allt önnur. Bandaríkjadalur kostaði þá 136 krónur, evran tæplega 150 og pundið 206. Mest af útflutningi Ísland er inn á þessu þrjú myntsvæði, svo sveiflan er töluvert mikil.
Einn þeirra sem talað hefur fyrir því að nú sé kjörið að afnema höftin strax, og vinna með því á móti þessu styrkingarferli, er Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá Kviku. Í grein í Fréttablaðinu í vikunni segir hann að allar forsendur séu nú fyrir hendi til að gera þetta.
Í gær lýstu þingmenn áhyggjum sínum af gengi krónunnar, og sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, að nauðsynlegt væri að grípa inn í þessa þróun og halda gengi krónunnar töluvert veikara en það er nú. Annars myndi fara illa hjá mörgum fyrirtækjum. Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir þetta og lýsti áhyggjum sínum.
Erfitt er að segja til um hvernig gengi krónunnar um þróast á næstu misserum, en margt bendir þó til þess að það geti styrkst nokkuð. Mikil gjaldeyrisinnstreymi hefur verið inn í landið vegna vaxtar í ferðaþjónustunni, en á sama tíma hefur skuldastaða þjóðarbússin í útlöndum sjaldan eða aldrei verið betri. Þá hafa bankarnir verið að stíga frekari skref inn í fjármagnsmarkaði erlendis, og þannig aflað fjár fyrir fjármálakerfið.
Allt hefur þetta ýtt undir styrkingu krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum, en vandi er að spá fyrir um hvar jafnvægispunkturinn geti verið til framtíðar litið þegar að þessum málum kemur.