Ríkisstjórnin hefur samþykkt nýjar reglur um starfshætti ríkisstjórnar, sem fela meðal annars í sér að ríkisstjórnarfundum verður fækkað í einn á viku.
Þetta var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun, en samkvæmt tilkynningu frá forsætisráðuneytinu fela reglurnar í sér veigamiklar breytingar á eldri reglum. Markmiðið með breytingunum er að stórefla efnislegan undirbúning fyrir ríkisstjórnarfundi með auknu samráði og samhæfingu á milli ráðherra.
Helstu breytingarnar eru að ríkisstjórnarfundum er fækkað úr tveimur í viku að jafnaði í einn fund á viku, á föstudögum. Þá verður undirbúningi funda hagað með þeim hætti að ráðherrar hafi tök á að kynna sér mál sem aðrir ráðherrar leggja fram, með lengri fyrirvara en áður. Þetta felst í því að ráðherrar eiga að senda forsætisráðherra tillögur um dagskrármál ásamt gögnum máls í gegnum fundarkerfi ríkisstjórnarinnar eigi síðar en klukkan þrjú á þriðjudögum. Þetta á að vera aðgengilegt ráðherrum fyrir klukkan tíu á miðvikudögum og lokaútgáfur af skjölum og endanleg dagskrá fundar á svo að liggja fyrir á fimmtudagseftirmiðdögum, áður en fundur er svo haldinn á föstudagsmorgni.