Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins og núverandi þingmaður, segir að viðtalið við hann um Panamaskjölin í Kastljósi fyrir tæpu ári síðan hafi í raun verið falsað. Þetta kom fram í þættinum Víglínunni á Stöð 2 í dag.
„Ég efast um að það hefði breytt miklu hvernig maður brást við í einu viðtali, sérstaklega í ljósi þess að viðtalið var í raun falsað. Það var búið að skrifa þetta allt fyrir fram, búið að æfa, sem er auðvitað alveg dæmalaust, búið að æfa hvernig mætti rugla viðmælandann sem mest í ríminu og láta hann koma sem verst út,“ sagði Sigmundur Davíð meðal annars. Hann sagði að framan af hefði hann haldið að viðtalið yrði bara birt á netinu, en ekki að stór sjónvarpsstöð og hvað þá tvær, myndu birta það. Hann sagði af sér tveimur dögum eftir að viðtalið var sýnt í byrjun apríl í fyrra.
Sigmundur sagði líka að honum hafi ekki þótt þetta viðtal vera aðalatriðið í Wintris-málinu. Hann segist telja að hann hafi sagt Bjarna Benediktssyni, þáverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra, frá viðtalinu fljótlega eftir það. Hann var spurður að því hvort honum hafi fundist ósanngjarnt að hafa þurft að segja af sér í ljósi þess að Bjarni hafi líka verið í Panamaskjölunum, en sagði að hann hefði ekki séð ástæðu til að taka Bjarna niður með sér. Hann hafi verið að stíga til hliðar tímabundið.
„Ég mat það sem svo að það væri mikilvægast af öllu að ríkisstjórnin gæti áfram unnið að þessum stóru málum sem hún var að vinna að,“ sagði Sigmundur Davíð.