VR hefur krafist þess að DV ehf., útgáfufélag DV, verði tekið til gjaldþrotaskipta. Erfiðlega hefur reynst að innheimta kröfur af útgáfufélaginu því áður hafði Lífeyrissjóður verslunarmanna gert árangurslaust fjárnám þar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Árangurslaust fjárnám hefur þau réttaráhrif samkvæmt lögum að í þrjá mánuði á eftir geta allir kröfuhafar DV ehf. farið fram á að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti. „Ég er með launakröfu fyrir einn fyrrverandi starfsmann DV. Við erum búin að senda út innheimtubréf og við erum í viðræðum við þá um að leysa þetta,“ segir Guðmundur B. Ólafsson sem rekur málið fyrir VR í viðtali við Fréttablaðið.
Ólafur Haukur Hákonarson auglýsingasölumaður hætti störfum hjá DV síðasta sumar. Hann segir að krafa sín nemi rétt tæplega milljón, en DV braut á honum, meðal annars með því að halda eftir meðlagsgreiðslum hans. „Það sem var kveikjan að því að ég hætti hjá þeim var að ég var með stefnu frá Innheimtustofnun sveitarfélaganna þar sem kom í ljós að ég átti að skulda þeim einhvers staðar á milli 6-700 þúsund krónur í meðlög en varð mjög undrandi af því að meðlög voru alltaf dregin af laununum mínum. En það kom í ljós að þau skiluðu sér ekki til Innheimtustofnunarinnar og ég gat sýnt fram á það að þetta hafði alltaf verið dregið af laununum mínum. Þannig að þeir færðu kröfuna bara yfir á DV,“ segir Ólafur Haukur í viðtali við Fréttablaðið.
Samkvæmt upplýsingum á vef Fjölmiðlanefndar er Pressan ehf. stærsti eigandi DV með ríflega 86 prósent hlut, en stærstu eigendur Pressunnar eru Björn Ingi Hrafnsson og Arnar Ægisson.
Upplýsingar um eignarhald á DV, eins og það birtist á vef Fjömiðlarnefndar, eru hér á eftir.
Pressan ehf., 86,38%
Guðberg ehf., í eigu Berglindar Jónsdóttur o.fl., 7,09%
Gagnsæi ehf., í eigu Arev hf., 4,98%
Meiriháttar ehf, í eigu Sigurdórs Sigurðssonar, 1,10%
VB Bakki ehf., í eigu Þórunnar Guðmundsdóttur, 0,45%
Eignarhald Pressunnar ehf:
Kringluturninn, 28%, eigendur Björn Ingi Hrafnsson, 50%, og Arnar Ægisson, 50%
Kringlueignir ehf., 31,85% eigandi Björn Ingi Hrafnsson
AB 11 ehf., 22,15%, eigendur Björn Ingi Hrafnsson, 50%, og Arnar Ægisson, 50%
Steinn Kári Ragnarsson framkvæmdastjóri, 10%
Jakob Hrafnsson framkvæmdastjóri, 8%.
Á dögunum var svo frá því greint að Pressan ehf. hefði eignast Birting. Ekkert hefur komið fram um hvernig félagið greiddi fyrir hlutinn, en í tilkynningu segir að hluthafar Birtings, þar helst Hreinn Loftsson lögmaður, muni fá hlut í Pressunni í tengslum við þessi viðskipti. Samkvæmt upplýsingum á vef Fjölmiðlanefndar, hafa ekki verið sendar inn neinar tilkynningar um breytingar á hluthafalistanum.