Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, segir í pistli á vef Viðreisnar, þar sem hann fer yfir störfin í stjórnmálunum í síðustu viku, að ekki megi gera sömu mistökin í bankakerfinu nú og voru gerð árið 2003 þegar bankarnir voru seldir einkaaðilum og miklar breytingar urðu svo í kjölfarið á umsvifum bankanna í hagkerfinu.
„Svo var talað um eigendastefnu ríkisins í sérstakri hálftíma umræðu (sem er líklega nær 45 mínútum). Mest var reyndar talað um endurskipulagningu bankakerfisins, sem er vissulega áhugavert mál, en ekki það sama og eigendastefna. Ég er ekki viss um hvort þingmenn áttuðu sig almennt á því að ríkið getur sett lagaramma um bankakerfið óháð því hvort það á hlut í bönkunum. Það er aftur á móti þarft að ræða mál eins og aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi og hver áhrif einstakra hluthafa mega vera. Miklu skiptir að mistökin frá 2003 verði ekki endurtekin þar sem bankarnir hættu að vera þjónustustofnanir og urðu virkir gerendur í atvinnulífinu sem hluti af viðskiptablokkum. Loks þarf að huga að heildarstærð bankakerfisins, en þetta er ekki það sama og eigendastefna,“ segir Benedikt í pistli sínum.
Eins og greint hefur verið frá þá stendur til að selja um helmingshlut í Arion banka á næstu misserum. Kaupþing á 87 prósent í bankanum en ríkið 13 prósent. Hugmyndin er að lífeyrissjóðir kaupi 25-30 prósent hlut í Arion banka en vogunarsjóðirnir – Taconic Capital og Och-ZiffCapital – 20-25 prósent hlut. Stefnt var að því að klára kaupin í mars en nú er ljóst að af því verður ekki. Nú er vilji til að gera það, ef af verður, í apríl eða maí.
Fram hefur komið í máli fjármálaráðherra að það sé ekki ríkið sem sé að selja heldur kröfuhafarnir.
Kjarninn hefur sent Fjármálaeftirlitinu fyrirspurn um vogunarsjóðina og hverjir séu endanlegir eigendur þeirra. Fyrirspurninni hefur ekki verið svarað.