Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur ákveðið að skipa starfshóp sem á að skoða kosti og galla þess að aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi íslenskra banka. Starfshópurinn á að skila skýrslu sem ráðherra hyggst leggja fram á Alþingi á yfirstandandi vorþingi.
Í bréfi sem Seðlabanki Íslands sendi efnahags- og viðskiptanefnd vegna óskar hennar um umsögn bankans um þingsályktunartillögu um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi kemur fram að bankinn myndi ekki skila slíkri. Ástæðan væri sú að fjármála- og efnahagsráðherra hefði óskað eftir því við bankann að hann tilnefni fulltrúa í starfshóp sem hafi það verkefni að skoða kosti og galla þess að aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi.
Ekkert hefur verið greint frá tilvist slíks starfshóps opinberlega og Kjarninn beindi því fyrirspurn til ráðuneytisins um málið.
Í svari þess er staðfest að til standi að skipa umræddan starfshóp og að hann eigi að skila af sér á vorþingi. Óskað hefur verið eftir því að Fjármálaeftirlitið, Seðlabanki Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytið skipi fulltrúa í hópinn. Enn sem komið er þá er hópurinn ekki mannaður en mælst var til þess að tilnefningar myndu berast ráðuneytinu eigi síðar en í dag, 8. mars.
Í svari ráðuneytisins segir enn fremur að starfshópurinn sem áformað sé að skipa muni nánar til tekið fá það hlutverk að skoða erlenda löggjöf um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi og leggja mat á það hvaða kostir og gallar séu á slíkri löggjöf fyrir fjármálamarkað hér á landi. „Þá skuli hann skoða og hvort ástæða sé til að takmarka áhættu af fjárfestingarbankastarfsemi alhliða banka, og þá hvaða leiðir séu færar. Sérstaklega mun starfshópurinn nýta vinnu starfshóps sem skipaður var af fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra hinn 27. apríl 2016 um svipað verkefni, en sá hópur skilaði áfangaskýrslu haustið 2016.“
Ráðuneytið greiðir ekki sérstaklega fyrir störf í starfshópnum og valið verður úr tilnefningum svo að kynjaskipting verði sem jöfnust.
Sá hópur sem skipaður var á síðasta kjörtímabili, og skilaði áfangaskýrslu í haust, samanstóð af fulltrúum sömu aðila og eiga að tilnefna í nýja hópinn. Hann átti upphaflega að skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps eigi síðar en 1. september 2016, en af því varð ekki. Starfshópurinn var skipaður Leifi Arnkeli Skarphéðinssyni, sérfræðingi á skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar hjá fjármálaráðuneytinu og jafnframt formanni hópsins, Sigríði Benediktsdóttur, þáverandi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, Sigríði Logadóttur, aðallögfræðingi Seðlabankans, Jóni Þór Sturlusyni, aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins, og Björk Sigurgísladóttur, lögfræðingi hjá Fjármálaeftirlitinu.