Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG og fyrrverandi fjármálaráðherra, er einn fimm þingmanna VG sem hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um sérstakar fjáröflunarráðstafanir í vegamálum. Hin eru Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.
Samkvæmt frumvarpinu myndu bensíngjöld og olíugjöld hækka. Bensíngjald af blýlausu bensíni færi úr 43,25 krónum á lítrann í 52 krónur, og gjöld af öðru bensíni færu úr 45,85 krónum á lítrann í 54,74 krónur. Olíugjald færi úr 60,10 krónum á lítrann í 68,52 krónur á lítrann.
Samkvæmt frumvarpinu myndu fjárheimildir Vegagerðarinnar til nýframkvæmda aukast um sem nemur áætluðum tekjum vegna þessara hækkana, eða um 2.000 milljónum króna. Þá væri Vegagerðinni heimilt að færa 500 milljónir króna af viðhalds- og þjónustulið yfir í nýframkvæmdir.
„Nú verður ekki lengur við ríkjandi ófremdarástand unað og þar sem ekkert bendir til að ný ríkisstjórn hyggist hverfa frá sveltistefnu í samgöngumálum er frumvarp þetta um sérstakar fjáröflunarráðstafanir í vegamálum á árinu 2017 flutt,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Þar kemur einnig fram að markmiðið með þessu sé að „bæta nokkuð úr því ófremarástandi sem við blasir“ í samgöngumálum. Með breytingunum væri hægt að setja nokkrar brýnar nýframkvæmdir, sem séu á gildandi samgönguáætlun en ráðherra ætli nú að strika út, í útboð og í framkvæmd á þessu ári.
Mikið hafi vantað upp á þessir mörkuðu tekjustofnar Vegagerðarinnar, sem gjöldin eru, hafi verið uppfærðir til samræmis við verðlagsþróun undanfarin ár. Talið sé að Vegagerðin hafi úr að spila að minnsta kosti sjö milljörðum minna en ella vegna þessa. „Sennilega er þar fremur um vanáætlun að ræða en hitt sökum mikillar umferðaraukningar að undanförnu.“
Frumvarpið eigi því að vera skref í átt að færa þetta til betri vegar. „Er ekki vanþörf á, sbr. síendurteknar fréttir af ófremdarástandi á vegum landsins og hávær mótmæli vegna þess niðurskurðar frá samþykktri samgönguáætlun sem mest er rætt um þessa dagana.“
Fréttin hefur verið uppfærð. Í upprunalegu skjali á vef Alþingi var Steingrímur J. Sigfússon einn skráður flutningsmaður frumvarpsins.