Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins og mælist með 25,4 prósent fylgi í nýjustu könnun MMR. Samstarfsflokkar hans í ríkisstjórn, Viðreisn og Björt framtíð, eru hins vegar minnstu flokkarnir af þeim sem náðu kjöri á Alþingi. Viðreisn mælist með 5,5 prósent fylgi og Björt framtíð 5 prósent.
Vinstri græn mælast með næst mest fylgi stjórnmálaflokka, 23,5 prósent. Píratar mælast með 13,7 prósent, Framsóknarflokkurinn 11,4 prósent og Samfylkingin 8,8 prósent. Fylgi annarra flokka mælist samanlagt 6,9 prósent.
Allar breytingar á fylgi flokkanna eru innan vikmarka, en allir flokkar nema Samfylkingin og Píratar mældust með aðeins minna fylgi en í síðustu könnun.
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkaði milli mælinga, var 37,9 prósent í síðustu könnun en nú sögðust 34,5 prósent styðja ríkisstjórnina.