Framkvæmdasjóður ferðamannastaða verður ekki lengur fjármagnaður með gistináttaskatti, samkvæmt drögum að frumvarpi um breytingar á lögum um sjóðinn, sem búið er að birta á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Þá munu ferðamannastaðir í opinberri eigu ekki lengur geta sótt um styrki í sjóðinn heldur eingöngu ferðamannastaðir í einkaeigu eða eigu sveitarfélaga.
Samkvæmt núgildandi lögum fær framkvæmdasjóður ferðamannastaða 3/5 hluta þeirra tekna sem ríkið fær af gistináttaskatti. Fyrir jól var gistináttaskatturinn þrefaldaður úr 100 krónum á hverja selda einingu í 300 krónur á hverja selda gistináttaeiningu. Sú breyting tekur gildi þann 1. september næstkomandi. Því hefði framkvæmdasjóðurinn að óbreyttu fengið talsvert hærri framlög af fjárlögum, en gert var ráð fyrir því að auknar tekjur ríkisins af hærri gistináttaskatti yrðu 300 milljónir á þessu ári og 1,2 milljarðar á næsta ári.
Ef frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, verður að lögum mun þetta breytast. Samkvæmt frumvarpinu verður framlag ríkissjóðs í framkvæmdasjóðinn ákveðið á fjárlögum, og sjóðurinn fær því ekki markaðar tekjur af gistináttaskatti. Þetta er í samræmi við fyrirkomulag laga um opinber fjármál þar sem almennt er ekki gert ráð fyrir því að tekjur séu markaðar í tiltekin verkefni.
Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu hefur ríkið sett talsvert meiri peninga inn í sjóðinn heldur en hlutur hans af gistináttaskattinum hefur sagt til um. Þannig var það í fyrra og gert er ráð fyrir verulegum viðbótarframlögum á fjárlögum ársins í ár.
Sveitarfélögin vildu hluta af gistináttaskatti
Líkt og Kjarninn greindi frá þegar gistináttaskatturinn var hækkaður vildi Samband íslenskra sveitarfélaga að sveitarfélög landsins fengju helming eða tvo þriðju hluta af gistináttaskattinum vegna þeirra ferðamanna sem gista innan þeirra marka. Þær tekjur myndu svo renna til þess að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar í því sveitarfélagi.
Þessu voru Samtök ferðaþjónustunnar ósammála, og vildu að skatturinn yrði óskiptur látinn renna inn í framkvæmdasjóð ferðamannastaða.
Þrátt fyrir að sjóðurinn hafi fengið hærri framlög en sem nemur skattinum var ákveðið að lækka framlögin til hans um 600 milljónir króna milli umræðna um fjárlagafrumvarpið fyrir jól. Ástæðan er sú að það hefur tekið mun lengri tíma að ráðstafa fé sjóðsins en gert hafði verið ráð fyrir.
Í fjárlögum síðasta árs var ákveðið að auka framlögin um 517 milljónir króna þrátt fyrir að þá hefðu 1,2 milljarður króna legið óhreyfður í sjóðnum um langt skeið. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið greindi frá því í september árið 2015 að við undirbúning fjárlaga fyrir 2016 hefði komið í ljós að „umtalsverðir fjármunir“ eða 1,2 milljarðar króna, lægju enn óhreyfðir í sjóðnum. Þessum fjármunum hafði ekki enn verið ráðstafað í þau verkefni sem þeim hafði verið úthlutað til. Ýmsar ástæður væru fyrir því en ljóst væri að bæta þyrfti úr skipulagi og framkvæmd.