Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, hefur undirritað samning um kaup á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins. Kaupverðið er 7.725-7.875 milljónir króna. Það greiðist í reiðufé, með útgáfu nýrra hluta í Fjarskiptum og yfirtöku á 4,6 milljarða króna skuldum. Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Sú breyting er hefur orðið á fyrra samkomulagi að nú eru Fjarskipti ekki bara að kaupa ljósvaka- og fjarskiptaeignir 365 miðla. Nú bætast bæði fréttavefurinn Vísir.is og fréttastofa 365, að undanskilinni ritstjórn og rekstri Fréttablaðsins, í kaupin. Áður ætlaði Fjarskipti einungis að kaupa sjónvarps- og útvarpsstöðvar 365 auk fjarskiptahluta fyrirtækisins. Helstu sjónvarpsstöðvar eru Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórásin. Helstu útvarpsstöðvar eru Bylgjan, FM957 og X-ið.
Í tilkynningunni segir að með viðskiptunum eignir Fjarskipti „öflugasta fjölmiðla- og afþreyingarfyrirtækið hér á landi. Velta sameinaðs félags mun nema um 22 milljörðum króna og skila um 5 milljörðum króna í EBITDA þegar samlegðaráhrif eru að fullu komin fram. Með viðskiptunum verður til leiðandi fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki á Íslandi, sem mun veita yfir 500 manns atvinnu og bjóða upp á fjölbreytt vöruframboð og enn betri þjónustu til sinna viðskiptavina.“
Fréttablaðið verður áfram í eigu 365 miðla. Það verður tímaritið Glamour einnig. Engar breytingar verða á eignarhaldi þess félags, samkvæmt því sem kom fram á fundi með starfsmönnum sem nú stendur yfir.
Ætla að ná fram rúmum milljarði í samlegð með lægri kostnaði
Í kynningu sem Fjarskipti hafa birt á vef sínum, og er ætluð fyrir fjárfesta, kemur fram að helstu forsendur viðskiptanna séu þær að tækifæri til samlegðar sé metið á 1,1 milljarð króna á ári. Um 90 prósent samlegðarinnar er vegna væntinga um lægri rekstrarkostnað. Þá mun myndast um sjö milljarða króna óefnisleg eign hjá Fjarskiptum vegna kaupanna. Yfirteknar viðskiptaskuldir eru 1.550 milljónir króna en viðskiptakröfur verða skildar eftir hjá seljanda, 365 miðlum, við afhendingu. Fjarskipti áætla að fjárfesting í rekstri þeirra eigna sem félagið var að kaupa verði um 250 milljónir króna á ári.
Helstu áhættuþættir viðskiptanna eru sagðir þeir að Samkeppniseftirlitið banni eða setji kaupunum íþyngjandi skilyrði, að brottfall verði á viðskiptavinum við eða í kjölfar afhendingu á eignum eða að fækkum viðskiptavina í áskriftarsjónvarpi eins og það sem 365 hefur verið að reka haldi áfram að fækka, meðal annars með aukinni samkeppni frá erlendum efnisveitum.
Vísi og fréttastofunni bætt við á lokasprettinum
Upphaflega var tilkynnt um kaupin í ágúst í fyrra. Þá átti að greiða alls um átta milljarða króna fyrir hinar keyptu eignir, 1,7 milljarða króna í reiðufé, 1,7 milljarða króna í nýju hlutafé og með yfirtöku á 4,6 milljarða króna vaxtaberandi skuldum. Í desember var tilkynnt að verðmiðinn hefði verið lækkaður og að nú myndu hluthafar 365 miðla einungis fá 1,2 milljarða króna í reiðufé. Síðan hefur gengið erfiðlega að ná viðskiptunum saman og í lokaútfærslu þeirra var fréttavefnum Vísi.is, næst mest lesna vef landsins, og fréttastofu ljósvakamiðla 365, bætt við kaupin. Við það hækkaði verðmiðinn um 225-375 milljónir króna. Endanlegt kaupverð mun ráðast af rekstarárangir hins keypta fram að afendingu.
Ljóst er að Fréttablaðið og tengdar útgáfur verða áfram inni í 365 miðlum ásamt þeim skuldum sem skildar verða eftir við viðskiptin. Nú stendur yfir starfsmannafundur hjá 365 miðlum þar sem verið er að greina starfsfólki frá því hver áhrif viðskiptanna verða á þau. Þar kom meðal annars fram, samkvæmt heimildum Kjarnans, að Sævar Freyr Þráinsson er hættursem forstjóri 365 miðla.
Í tilkynningu til Kauphallar segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, að ljósvakamiðlar verði reknir sem sérstöku rekstrareining innan Fjarskipta. „Við berum mikla virðingu fyrir fjölmiðlum 365 og gerum okkur fyllilega grein fyrir ábyrgð okkar þegar kemur að kaupum á fjölmiðli sem rekur eina öflugustu fréttastofu landsins. Við munum haga skipulagi á þann máta að sjálfstæði fréttastofu verði tryggt. Þeir fjölmiðlar sem um ræðir eru mikilvægir fyrir upplýsingamiðlun og menningu á Íslandi og því er það mikið kappsmál fyrir okkur að vanda mjög til verka þegar kemur að rekstri þeirra. Hér er um góðar fréttir að ræða fyrir fjarskipta- og fjölmiðlamarkaðinn, hluthafa Fjarskipta, viðskiptavini beggja fyrirtækja og landsmenn alla."
Núverandi hluthafar 365 verða stórir í Fjarskiptum
Núverandi hluthafar 365 miðla munu eignast 10,9 prósent hlut í Fjarskiptum eftir ef greitt verður með nýju hlutafé, líkt og stefnt er að. Það þýðir að stærsti eigandi 365 miðla, aflandsfélög í eigu Ingibjargar S. Pálmadóttur, munu eignast um átta prósent í Fjarskiptum. Samanlagt verða félög hennar stærsti einstaki einkafjárfestirinn í hluthafahópi félagsins. Í dag er það Ursus, félag Heiðars Guðjónssonar, sem á 6,4 prósent hlut. Í krafti þess eignarhlutar er Heiðar stjórnarformaður Fjarskipta. Stærstu eigendur Fjarskipta eru þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður. Samanlagt eiga þeir 32,13 prósent eignarhlut í félaginu.