Það er æskilegt að eigendur bankanna hafi áhuga á heilbrigðum rekstri til frambúðar og skammtímahagsmunir hjá þeim sem eiga virka eignarhluti í bönkum ráði ekki ferðinni. Þetta sagði Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME, í viðtali við RÚV á dögunum.
Til umræðu í viðtalinu, á Morgunvakt Rásar 1, var meðal annars fyrirhuguðsala á hlutabréfum í Arion banka, en eins og fram hefur komið, meðal annars á vef Kjarnans, hafa vogunarsjóðir hug á því að eignast 20 til 25 prósent í Arion banka, á móti sambærilegu hlutfalli lífeyrissjóða.
Kaupþing á 87 prósent hlut í Arion banka og íslenska ríkið á 13 prósent.
Ekki hefur verið upplýst um hverjir séu eigendur vogunarsjóðanna Taconic Capital og Och-ZiffCapital, sem hafa áhuga á því að eignast hlut í Arion banka. Unnur sagði í viðtalinu við RÚV að ennþá hefði ekki farið fram nein skoðun á eignarhaldi sjóðanna eða hvort þeir teldust æskilegir eigendur bankanna. Þá greindi Kjarninn frá því á dögunum að FME hefði ekki svarað fyrirspurn varðandi athugun á sjóðunum. Ástæðan var sú að fyrirspurnin hafði ekki borist til réttra aðila innan eftirlitsins, samkvæmt svörum frá FME.
Í viðtalinu sagði Unnur að bankar væru ekki heit söluvara eftir fjármálaáfallið 2008/2009 á heimsvísu. „Það eru mikið þessir sjóðir sem stundum eru kallaðir vogunarsjóðir en sumir eru kallaðir fjárfestingarsjóðir og það er einhver blæbrigðamunur á þeim sem hafa verið að sýna þessu áhuga,“ sagði Unnur og vitnaði til áhuga á hlutafé í íslensku bönkunum.
Sagði hún sjóðina vera misjafnlega virðingarverða og fyrir FME liggi að greina hvernig eignarhald á sjóðunum væri.