Minnihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis hefur óskað eftir sérstökum fundi nefndarinnar vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Steingríms Sævarrs Ólafssonar.
Líkt og Kjarninn greindi frá í gær komst dómstóllinn að því að Hæstiréttur hefði brotið gegn tíundu grein Mannréttindasáttmálans og tjáningarfrelsi Steingríms Sævarrs með því að dæma hann fyrir meiðyrði. Hann var dæmdur vegna greina sem birtust um Ægi Geirdal, þar sem tvær systur sökuðu hann um barnaníð.
Minnihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis telur dóminn vekja upp spurningar um núverandi lagaumgjörð tjáningarfrelsis á Íslandi, að því er kemur fram í tilkynningu frá fulltrúum minnihlutans.
„Að mati minnihlutans þarfnast málefnið frekari skoðunar og óskaði hann því eftir að nefndin haldi sérstakan fund og boði til sín álitsgjafa og sérfræðinga til þess að ræða málið sem allra fyrst. Efni fundarins mun varða hvernig bæta mætti íslenska lagaumgjörð til þess að tryggja betur vernd tjáningarfrelsis á Íslandi sem og komast að því hvernig best verði tryggt að Ísland uppfylli kröfur Mannréttindasáttmála Evrópu um vernd tjáningarfrelsis, sem og sambærilegra ákvæða í öðrum mannréttindasáttmálum sem ríkið hefur gengist við.“
Fulltrúar minnihlutans, þau Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Gunnar Hrafn Jónsson frá Pírötum, Eygló Harðardóttir frá Framsókn og Andrés Ingi Jónsson frá VG, óska eftir því að fulltrúar frá Hæstarétti, dómsmálaráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu, Mannréttindaskrifstofu Íslands eða mannréttindaskrifstofu Háskóla Íslands og fulltrúar fjölmiðla verði meðal þeirra sem verði boðaðir á fundinn. Meðal annars vilja þau fá blaðamann, sem hefur unnið mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, fyrir nefndina.
Þá óska þau eftir því að fundurinn verði haldinn sem fyrst.