Fylgið hrynur af Bjartri framtíð og Viðreisn, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, sem fjallað er um í blaðinu í dag.
Samkvæmt könnuninni, sem gerð var 20. og 21. mars, fengi Björt framtíð 3,8 prósent atkvæða en Viðreisn 3,1 prósent. Hvorugur flokkanna nær því fimm prósent lágmarkinu sem þarf til að koma manni inn á þing.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstu flokka en 32.1 prósent þeirra sem afstöðu tóku segjast styðja hann.
Vinstri-græn eru langstærsti stjórnarandstöðuflokkurinn með 27,3 prósent fylgi samkvæmt könnuninni og Píratar fengju 14,5 prósent.
Samfylkingin er samkvæmt þessari könnun komin upp fyrir Framsóknarflokkinn og mælist með 8,8 prósent fylgi en sjö prósent segjast styðja Framsókn.
Hringt var í 1.242 manns samkvæmt slembiúrtaki úr þjóðskrá, uns samband hafði náðst við 791. Svarhlutfall var 63,7 prósent.