Unnið að undirbúningi viðskipta við þá aflandskrónueigendur sem enn eru hluti af hinni svonefndu snjóhengju aflandskróna, og verða nánari upplýsingar birtar um þau á næstu dögum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Seðlabanka Íslands.
„Þegar tilkynnt var um samning Seðlabanka Íslands við aflandskrónueigendur 12. mars sl. var jafnframt tilkynnt að aflandskrónueigendum sem ekki hefðu gert samkomulag við bankann yrði boðið að gera sams konar samninga. Unnið er að undirbúningi viðskipta við aðra aflandskrónueigendur og verða nánari upplýsingar birtar á næstu dögum. Að gefnu tilefni skal tekið fram að frestur til að ganga að tilboði Seðlabankans telst ekki hefjast fyrr en nánari upplýsingar um fyrirkomulag viðskiptanna hafa verið birtar,“ segir í tilkynningu frá Seðlabankanum.
Eins og fram kom á vef Kjarnans í gær þá segist einn stærsti eigandi aflandskróna, í viðtali við Bloomberg, að með því að hafna tilboði Seðlabanka Íslands um að selja þeim evrur fyrir krónur á genginu 137.5 krónur fyrir hverja evru, muni þeir að veðja á að fá hagstæðara gengi þegar höftum verður að fullu aflétt.
Þetta kemur fram í umfjöllun Bloomberg, þar sem rætt er við Peter Sheehan, aðalgreinanda bandaríska Loomis Sayles & Co., sem á aflandskrónur fyrir um 50 milljarða króna. Hann segir sjóðinn horfa til þess að fá hagstæðara gengi og því hafi tilboði stjórnvalda ekki verið tekið.
Um 200 milljarðar aflandskróna eru enn í hinni svonefndu aflandskrónusnjóhengju. Vogunarsjóðir halda á þessari eign að mestu, en auk Loomis eru það Eaton Vance Corp., Autonomy Capital LP and Discovery Capital LLC. Tilboð stjórnvalda um kaup á fyrrnefndu gengi rennur út 28. mars, og því skýrist það fyrst þá hvernig staðan verður varðandi aflandskrónurnar.
Eaton Vance og Autonomy Capital eiga aðild að dómsmáli gagnvart stjórnvöldum, sem snýrt að því þegar hluti aflandskrónuvandans var leystu á gengi sem nam um 190 krónum fyrir hverja evru. Sjóðirnir telja stjórnvöld hafa verið í órétti í þessum aðgerðum.
Sé mið tekið af tilkynningu Seðlabanka Íslands þá eru ekki öll kurl komin til grafar enn hvað aflandskrónuvandann varðar. Markaðsgengi evru gagnvart krónu er nú 120 krónur fyrir hverja evru.