„Þrátt fyrir þá óvenjulegu stöðu að beina aðkomu Framsóknarflokksins skorti við þessa bankasölu mun umræddur banki vonandi lifa áfram eigendum sínum, starfsmönnum og viðskiptavinum til gagns. En auðvitað er ekki á vísan að róa í bankarekstri, alveg sama hver eigandinn er, eins og undanfarinn áratugur hefur kennt mönnum á nokkuð sársaukafullan hátt á Vesturlöndum.“ Þetta segir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra í grein í Morgunblaðinu í dag.
Þar fjallar hún um sölu á 29,18 prósent hlut í Arion banka til þriggja vogunarsjóða og Goldman Sachs fyrir 48,8 milljarða króna, sem tilkynnt var um á sunnudag. Kaupendurnir hafa auk þess kauprétt á 21,9 prósent hlut til viðbótar. Verði hann nýttur munu þeir verða meirihlutaeigendur í bankanum. Seljandi hlutarins er Kaupþing ehf., en kaupendur hans eiga um 66 prósent í því félagi.
Sigríður furðar sig á þeirri reiði sem sprottið hefur upp með þessi viðskipti einkaaðila með hlut í banka. Eina aðkoma ríkisins hafi verið sú að söluandvirðið hafi runnið í ríkissjóð. Ráðherrann segir þá sem orðið hafi svona reiðir vegna málsins hafi meðal annars verið nokkrir þingmenn sem komið hefðu að og samþykkt þau lög sem um þessi mál gilda, bæði almenn lög sem gilda um eignarhald banda og eftirlit með þeim og sérstök lög sem lögðu grunn að því að hægt væri að aflétta höftunum að mestu leyti og vörðuðu því leiðina í þessum viðskiptum með hlutinn í Arion banka.
Mesta undrun Sigríðar vakti þó að sjá fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins lýsa efasemdum um málið sem þeir sjálfir áttu svo ríkan þátt í með lagasetningu á síðasta kjörtímabili. „En ef til villl höfðu hinir ágætu Framsóknarmenn væntingar um að engir kaupendur fyndust að bankanum, hann endaði þar með á einhvern hátt í fangi ríkisins og yrði síðar meir liður í „endurskipulagningu“ Framsóknarflokksins á fjármálakerfinu.
Þrátt fyrir þá óvenjulegu stöðu að beina aðkomu Framsóknarflokksins skorti við þessa bankasölu mun umræddur banki vonandi lifa áfram eigendum sínum, starfsmönnum og viðskiptavinum til gagns. En auðvitað er ekki á vísan að róa í bankarekstri, alveg sama hver eigandinn er, eins og undanfarinn áratugur hefur kennt mönnum á nokkuð sársaukafullan hátt á Vesturlöndum.“